Massa: Titilkeppnin galopin

Massa telur sig standa vel að vígi í titilbaráttunni.
Massa telur sig standa vel að vígi í titilbaráttunni. ap

Felipe Massa hjá Ferrari segir að í framhaldi af því að hann var úrskurðaður sigurvegari í belgíska kappakstrinum sl. sunnudag, sé keppnin um heimsmeistaratitil ökuþóra galopin.

Massa kveðst hafa fulla trú á því að hann eigi góða helgi á heimavelli Ferrari í Monza á morgun, sunnudag.

„Þessi braut er frábrugðin öllum öðrum hvað frágang bílsins og loftaflsbúnaðar hans varðar. Ég vona virkilega að við verðum samkeppnisfærir.

McLaren sýndi vissulega góðan árangur við bílprófanirnar í síðustu viku og einnig í kappakstrinum í fyrra. Því verður samkeppnin mjög hörð. En ég held okkur miði í rétta átt og verðum að bíða og sjá hvort við finnum ákjósanlega uppsetningu frá byrjun æfinga helgarinnar,“ sagði Massa í Monza.

Sagan er ekki mjög á bandi Massa því besti árangur hans í fimm tilraunum í Monza er níunda sæti. Aðspurður um þetta svarar hann hlæjandi: „Ég vann hvern einasta kappakstur minn hér fyrir formúlu-1, svo þetta er ekki svo slæmt.

Og ég kann virkilega vel við þessa braut og á góðar minningar úr henni í öðrum formúlum. Svo sem formúlu Renault og formúlu-3000, hér var ég alltaf hjög öflugur. Annað hefur því miður átt við um formúlu-1, í fyrra hefði það þó getað orðið annað sæti. Kappaksturinn gekk vel þangað til ég varð fyrir vélrænni bilun. Ég er mjög spenntur fyrir helginni og bjartsýnn á að geta gert góða hluti.

Vegna úrslitanna í Spa-Francorchamps sl. sunnudag er Massa aðeins tveimur stigum á eftir Lewis Hamilton hjá McLaren. Og hann telur að titilbaráttan verði jöfn og hörð í mótunum fimm sem eftir eru.

„Keppnin er galopin. Í pottinum eru 50 stig sem er há tala miðað við muninn sem á okkur er. Við höfum séð í ár mót þar sem Ferrari hefur verið aðeins öflugri og önnur þar sem McLaren var betri. Það er mjög erfitt að segja til um hvar við getum hugsanlega verið aðeins betri eða þeir. Ég held að keppnin verði tvísýn í mótunum öllum,“ sagði Massa.

Massa í Monza í gær.
Massa í Monza í gær. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert