Bernie Ecclestone, alráður formúlunnar, hefur söðlað um og veðjar nú á að Lewis Hamilton verði heimsmeistari ökumanna í ár. Hingað til hefur hann haldið með Felipe Massa.
„Ég held líkurnar séu aðeins meiri á sigri Hamiltons nú. Frá vertíðarbyrjun hef ég sagt að Massa myndi vinna titilinn fyrir Ferrari.
En að verða vitni að því sem Hamilton gerir við hvaða aðstæður sem er, þá finnst mér hann núna líklegri til að vinna titilinn,“ segir Ecclestone.
Næsta prófraun Hamiltons á sér stað eftir viku í París er hann mætir fyrir áfrýjunarrétt Alþjóða akstursíþróttasambandsins vegna umdeilds atviks í belgíska kappakstrinum.
Dómarar kappakstursins töldu hann brotlegan við reglur og beittu refsingu sem varð til þess að hann féll úr fyrsta sæti niður í það þriðja. Við það minnkaði forskot hans í keppni ökumanna um sex stig.