Mario Theissen, liðsstjóri BMW, álítur að kappakstur helgarinnar í Singapúr eigi eftir að teljast formúlumót ársins. Ekið verður að kvöldi til og hefur 1.500 öflugum ljósamöstrum verið komið upp meðfram brautinni.
„Umgjörðin er stórkostleg, með skýjakljúfunum, hraðbrautum og görðum. Orð fá þessu tæpast lýst. Ég gekk brautina í gær og hér er allt öðru vísi en við eigum að venjast. Hvað brautina varðar eru eiginleikar hennar aðrir en ég bjóst við.
Er ég var hér í mars gekk ég brautina einnig og hún virkaði þá sem hún yrði mun hraðar á einstökum svæðum. Öryggi hefur verið aukið en á kostnað tækifæra til framúraksturs,“ segir Theissen.
Hann segist óviss um hvort brautin bjóði upp á fleiri möguleika til framúraksturs en brautin í Valencia fyrr í sumar. Þrátt fyrir mikið hrós fyrirfram og væntingar til þeirrar brautar varð kappaksturinn bragðdaufur og engin framúrakstur átti sér stað.
„Sem mót þá verður kappaksturinn hér tvímælalaust formúlunni til framdráttar. Spurninger þó um framúrakstur. Í Valencia bjóst ég við meiru en þar gerðist og brautin í Valencia er tvímælalaust hraðari en þessi,“ segir Theissen.