Felipe Massa hjá Ferrari var í þessu að vinna ráspól kappakstursins í Singapúr eftir spennandi keppni við Lewis Hamilton hjá McLaren og liðsfélaga sinn Kimi Räikkönen. Í lokatilraun sinni velti Massa Hamilton úr efsta sæti með næstum því 0,7 sekúndu hraðari hring.
Sem oft áður tókust ökuþórar Ferrari og McLaren á um pólinn en í síðustu tilraun sinni komst Robert Kubica hjá BMW upp á meðal þeirra og hreppti fjórða sætið, einu á undan Heikki Kovalainen hjá McLaren.
Fjórir Þjóðverjar urðu í sjötta til níunda sæti; Nick Heidfeld hjá BMW, Sebastian Vettel hjá Toro Rosso, Timo Glock hjá Toyota og Nico Rosberg hjá Williams. Félagi hans Kazuki Nakajima varð svo tíundi, sem er hans bestí árangur í tímatökum.
Massa virtist í nokkrum sérflokki miðað við brautartíma, en hann átti besta tíma á öllum köflum brautarinnar í þriðju lotu.
Hamilton mátti hrósa happi að komast í lokalotuna, setti tíunda besta tímann í annarri umferð eftir misheppnaða hringi.
Räikkönen var um tíma í fallsæti í fyrstu lotu en skaust á síðustu sekúndum hennar upp í efsta sæti.
Williamsliðið fagnar þeim árangri að eiga báða bíla í fyrsta sinn á árinu meðal tíu fremstu.
Fernando Alonso á Renault varð fyrir miklum vonbrigðum er bilun í bensínkerfi bílsins stöðvaði för hans í annarri umferð tímatökunnar. Væntingar Renault um sæti á fremstu rásröð voru miklar eftir að hann setti besta brautartíma á æfingum bæði í gær og í dag. Í staðinn steig Alonso mjög svekktur upp úr bíl sínum í brautarkanti. Vegna bilunarinnar hefur hann keppni í 15. sæti.
Kappaksturshelgin er orðin að martröð fyrir Giancarlo Fisichella hjá Force India áður en sjálfur kappaksturinn er hafin. Á æfingu í morgun stórlaskaði hann bíl sinn og var viðgerð ekki lokið fyrr en langt var liðið á fyrstu lotu tímatökunnar. Hann komst þó ekki lengra en í þriðju beygju, fór full geyst á köldum dekkjum og endaði á öryggisvegg. Skemmdi þó aðeins framvæng að þessu sinni en setti engan tíma og hefur því keppni aftastur.
Niðurstaða tímatökunnar varð annars sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Lota 1 | Lota 2 | Lota 3 | Hri. |
---|---|---|---|---|---|---|
1. | Massa | Ferrari | 1:44.519 | 1:44.014 | 1:44.801 | 16 |
2. | Hamilton | McLaren | 1:44.501 | 1:44.932 | 1:45.465 | 14 |
3. | Räikkönen | Ferrari | 1:44.282 | 1:44.232 | 1:45.617 | 16 |
4. | Kubica | BMW | 1:44.740 | 1:44.519 | 1:45.779 | 18 |
5. | Kovalainen | McLaren | 1:44.311 | 1:44.207 | 1:45.873 | 19 |
6. | Heidfeld | BMW | 1:45.548 | 1:44.520 | 1:45.964 | 19 |
7. | Vettel | Toro Rosso | 1:45.042 | 1:44.261 | 1:46.244 | 15 |
8. | Glock | Toyota | 1:45.184 | 1:44.441 | 1:46.328 | 21 |
9. | Rosberg | Williams | 1:45.103 | 1:44.429 | 1:46.611 | 17 |
10. | Nakajima | Williams | 1:45.127 | 1:44.826 | 1:47.547 | 20 |
11. | Trulli | Toyota | 1:45.642 | 1:45.038 | 12 | |
12. | Button | Honda | 1:45.660 | 1:45.133 | 14 | |
13. | Webber | Red Bull | 1:45.493 | 1:45.212 | 12 | |
14. | Coulthard | Red Bull | 1:46.028 | 1:45.298 | 16 | |
15. | Alonso | Renault | 1:44.971 | 6 | ||
16. | Piquet | Renault | 1:46.037 | 6 | ||
17. | Bourdais | Toro Rosso | 1:46.389 | 6 | ||
18. | Barrichello | Honda | 1:46.583 | 7 | ||
19. | Sutil | Force India | 1:47.940 | 10 | ||
20. | Fisichella | Force India | Enginn tími | 1 |