Kimi Räikkönen gerði þá játningu eftir kappaksturinn í Singapúr, að hann væri nú endanlega úr leik í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Hann hlaut engin stig í dag, fjórða mótið í röð.
Räikkönen vann titilinn í lokamótinu í fyrra en er nú 27 stigum á eftir Lewis Hamilton hjá McLaren þegar þrjú mót eru eftir. Er Hamilton með 84 stig en Räikkönen 57. Í öðru sæti er Felipe Massa hjá Ferrari með 77 stig og þriðji Robert Kubica hjá BMW með 64, en eins og Räikkönen hlaut hvorugur þeirra stig í Singapúr.
Räikkönen sagðist leiður fyrir hönd Ferrariliðsins að hafa ekki unnið stig fremur en Massa, því fyrir bragðið tók McLaren forystuna af Ferrari í keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða.
„Möguleikar mínir voru litlir hvort eð var,“ sagði Räikkönen um brostnar titilvonir sínar. „Ég sé ekki eftir fimmta sætinu mín vegna en mér þykir leitt liðsins vegna að verða af stigunum. Ég mun í staðinn reyna gera betur næst,“ sagði heimsmeistarinn.
Räikkönen segist enn óviss um hvort hann þurfi að leika stuðningshlutverk fyrir Massa í titilkeppninni þeirra Hamiltons. Segist vita það eitt að liðið vilji sigur í titilkeppni. „Við verðum að bíða og sjá hvað verður. Sjálfur er ég líka að reyna aka til sigurs, en ég er alla vega úr leik í titlkeppninni,“ segir hann.
Tæpir fjórir hringir voru eftir af kappakstrinum í dag er Räikkönen fór of vítt í beygju er hann reyndi að sækja að Timo Glock hjá Toyota. Rakst hann utan í vegginn og braut hjól undan bílnum.