Fernando Alonso hjá Renault hefur komið mjög á óvart með sigri í tveimur síðustu mótum formúlu-1, í Singapúr og Fuji í Japan. Og hann hefur verið duglegur við stigasöfnun í þágu franska liðsins.
Alonso hefur unnið 35 stig í síðustu sex mótum, þ.e. frá og með ungverska kappakstrinum í Búdapest. Enginn ökumaður kemst í tæri við hann í þeim efnum.
Til samanburðar hefur Lewis Hamilton hjá McLaren unnið 26 stig á sama tíma og Felipe Massa hjá Ferrari 25 stig. Kimi Räikkönen hjá Ferrari hefur aðeins unnið 12 stig í þessum síðustu sex mótum.
Heikki Kovalainen hjá McLaren hefur unnið 23 stig í síðustu sex mótum, Robert Kubica hjá BMW 24, Nick Heidfeld hjá BMW 15 og Sebastian Vettel hjá Toro Rosso 24.