Jafnar fjórða sæti við sigur

Alonso á örlitlu hliðarskriði í beygju í keppninni í Sjanghæ.
Alonso á örlitlu hliðarskriði í beygju í keppninni í Sjanghæ. ap

Fernando Alonso hjá Renault var það ánægður með frammistöðu liðsins í Sjanghæ, að hann jafnaði fjórða sæti sínu við sigur. Var þetta í fyrsta sinn í fjórum mótum sem hann kemst ekki á verðlaunapall.

Með fjórða sæti Alonso og áttunda sæti Nelson Piquet gulltryggði Renault sér fjórða sætið í keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða.

Heimsmeistarinn fyrrverandi sagðist undrandi á hraða Renaultins í kappakstrinum. „Þetta lagðist vel og við vorum næstum jafnfljótir Ferraribílunum kappaksturinn nær allan í gegn, líka í tímatökunum í gær. Þetta kemur þægilega á óvart,“ sagði Alonso.

„Á fyrstu hringjunum var ég örlítið hraðskreiðari en þeir [ökumenn Ferrari] en komst ekki upp að þeim. Síðan bættu þeir í og skópu sér forskot. En ég var ekki í keppni við þá í dag.

Ég dró úr mótorhraðanum eftir að sprakk hjá Heikki [Kovalainen hjá McLaren], en síðan spýtti ég í er ég sá að Kimi [Räikkönen hjá Ferrari] slakaði á. Ég er virkilega ánægður með fjórða sætið, það staðfestir góðan árangur í síðustu mótum,“ sagði Alonso.

Með frammistöðunni komst hann upp fyrir Kovalainen í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Það þótti Alonso ekkert fagnaðarefni í sjálfu sér.„Sjötta, sjöunda eða fimmta sæti, skiptir engu í hverju þeirra maður er. Þegar maður er ekki í titilslagnum skipta hin sætin engu máli. En ég er samt ánægður því árangurinn í dag virkar næstum eins á mig og í síðustu tveimur mótum. Í keppni án mistaka af hálfu mótherjanna erum við fjórðu og alveg við toppinn,“ sagði hann.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert