Heikki Kovalainen segist „virkilega ánægður“ hjá McLaren en haft er hins vegar eftir vinum hans, að Finninn sé eigi alls kostar ánægður með hlutskipti sitt þar á bæ.
Að sögn blaðsins The Straits Times í Singapúr angrar það Kovalainen að í vaxandi mæli hefur komið í ljós að hann hafi þurft fyrst og fremst að aka í þágu liðsfélaga síns Lewis Hamilton.
Hamilton hefur frá upphafi vertíðar verið í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra en Kovalainen ekki.
Blaðið, sem þykir málsmetandi, segir að Kovalainen hafi tjáð „vinum að væri hagsmunum hans ekki betur sinnt á næsta ári, endurskoðar hann hugsanlega stöðu sína“.
Sagði í fréttinni, að Kovalainen væri einkum óhress með að þurfa tanka meira en Hamilton fyrir þriðju og síðustu lotu tímatökunnar. Fyrir vikið væri honum ókleift að keppa við liðsfélaga sinn í mótum.
Í lokamótinu í Sao Paulo í Brasilíu verður Kovalainen með nýjan mótor en Hamilton með vélina úr síðasta kappakstri, í Kína. Það gæti reynst Finnanum hagkvæmt þar sem hann getur tekið mun meira afl út úr honum þar sem mótorinn þarf einungis að duga þetta eina mót.