Lewis Hamilton hjá McLaren var í þessu að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra í formúlu-1. Hann varð fimmti í brasilíska kappakstrinum sem heimamaðurinn Felipe Massa á Ferrari vann. Munaði á þeim einu stigi að lokum í titilslagnum. Annar í kappakstrinum varð Fernando Alonso á Renault og þriðji Kimi Räikkönen á Ferrari.
Með þessu varð Hamilton yngsti ökumaður sögunnar til að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra í formúlu-1. Fyrra metið átti Alonso, frá því árið 2005. Alonso varð meistari 24 ára, eins mánaðar og 27 daga gamall. Hamilton er níu mánuðum og 28 dögum yngri í dag, en hann fæddist 7. janúar 1985.
Þá er hann fyrsti blökkumaðurinn til að vinna titilinn og breski ökuþórinn til að hampa honum frá því Damon Hill hjá Williams vann 1996. Loks er þetta fyrsti titill McLarenliðsins frá 1998, er Mika Häkkinen varð meistari.
Þegar tæpir þrír hringir voru eftir virtist titillinn vera að renna úr greipum Hamiltons, er Sebastian Vettel á Toro Rosso komst fram úr honum, rétt eftir að byrjaði að rigna á ný. Með því var Hamilton fallinn niður í sjötta sæti og titilinn blasti við Massa.
En undir lok síðasta hrings - síðustu beygju ársins - tókst Hamilton að smeygja sér fram úr Timo Glock hjá Toyota sem féll á lokahringnum úr fjórða sæti í það sjötta, en hann freistaði þess að aka í mark á þurrdekkjum í stað þess að skipta yfir á millidekk eins og flestir aðrir gerðu er 5-6 hringir voru eftir.
Það var því að vonum að Hamilton fagnaði mjög þegar á mark kom og faðmaði liðsmenn McLaren og fjölskyldu að sér. Ferrari hafði öðrum titli að fagna, titli bílsmiða.
Ræsingu kappakstursins var seinkað um 10 mínútur þar sem himnarnir bókstaflega opnuðust nokkrum mínútum áður en keppni skyldi hefjast. Við það var brautin víðast verulega blaut. Skúrin stóð í aðeins nokkrar mínútur og sólin brauast fram á ný. Vegna bleytunnar tóku allir ökumenn af stað á millidekkjum.
Massa aldrei ógnað
Í fyrstu beygju féllu tveir ökumenn úr leik, David Coulthard hjá Red Bull sem var að keppa síðasta sinni í formúlu-1 og heimamaðurinn Nelson Piquet á Renault. Óhappið varð við það að Nico Rosberg á Williams ók aftan á Coulthard sem snarsnerist og á endaði vegg. Rakst hann í leiðinni utan í Kazuki Nakajima hjá Williams sem snarsnerist líka en gat haldið áfram.
Massa var aldrei ógnað í fyrsta sæti en röð næstu manna riðlaðist talsvert er brautin þornaði og ökumenn skiptu yfir á þurrdekk. Síðastir til þeirra skipta voru Jarno Trulli á Toyota, Räikkönen og Hamilton sem féllu úr öðru til fjórða sæti niður í fimmta til sjöunda.
Hann komst fljótlega fram úr Trulli vegna akstursmistaka þess síðarnefnda. Fram úr Giancarlo Fisichella hjá Mætti Indlands (Force India) komst Hamilton hins vegar ekki fyrr en á 17. hring. Fisichella var langfyrstur til að taka áhættu á að skipta yfir þurrdekk og færðist við það úr einu af síðustu sætum í það fimmta.
Ferrari byrjaði að fagna titli ökuþóra
Vettel átti góðan dag og um tíma tvisvar sinnum í öðru sæti. Komst hann fram úr Hamilton í lokin er McLarenþórinn gerði mistök í beygju en við það renndu bæði Robert Kubica á BMW og Vettel sér fram úr honum. Þar með virtist hann ætla verða af titlinum annað árið í röð í lokamóti vertíðar.
En heppnin var hins vegar með honum á síðasta hring sem fyrr segir. Glock hafði lítið grip á sléttum þurrdekkjum og tapaði 17 sekúndna forskoti á hann á lokahringnum.
Í bílskúr Ferrari var á þessu stigi hafin mikil fagnaðarlæti; töldu titilinn fallinn í kjöltu Massa. Hoppaði fólk og dansaði af kæti. Dauðaþögn sló hins vegar á mannskapinn er röðin í mark birtist snimmhendis á tölvuskjám og sýndi Hamilton í fimmta sæti. McLarenmenn virtust niðurdregnir á lokahringjunum en Eyjólfur hresstist er úrslitin lágu fyrir og þeir stigu í staðinn stríðsdans.
Úrslit kappakstursins í Sao Paulo