Felipe Massa þekkir sitt heimafólk. Fyrir hans tilstilli laumuðust liðsmenn Toyota á brott frá kappakstursbrautinni í Sao Paulo í dulargervi, aðallega klæddir sem liðsmenn Ferrari og Renault.
Þótt dapur væri yfir því að vinna ekki heimsmeistaratitil ökuþóra á heimavelli, eins og leit út fyrir í nokkrar mínútur að hann myndi gera, beindust hugsanir Massa fljótt að velferð Timo Glock og öðrum liðsmönnum Toyota eftir kappaksturinn.
Lewis Hamilton hjá McLaren varð heimsmeistari með því að komast fram úr Glock í síðustu beygju kappakstursins. Massa óttaðist að það gæti orðið eldheitum áhorfendum og stuðningsmönnum hans tilefni til að láta reiði sína bitna á Glock; að þeir myndu að ósekju telja hann hafa hjálpað Hamilton og með því haft titilinn af Massa.
Af þessum sökum sendi hann bróður sinn yfir í bílskúr Toyota með þær ráðleggingar sínar að þeir færu úr einkennisklæðum liðsins áður en þeir yfirgæfu Interlagos-brautina.
Það tóku liðsmenn Toyota alvarlega og leituðu ásjár í bílskúrum grannliðanna. Frá brautinni héldu þeir til hótels síns eða út á flugvöll í afgangsfatnaði frá öðrum liðum, aðallega frá Renault eða Ferrari.