Williamsbíllinn fyrstur til að skarta vængjum næsta árs

Kennard á ferð á Williamsbílnum með 2009-væninga í Kemble.
Kennard á ferð á Williamsbílnum með 2009-væninga í Kemble.

Williamsliðið er fyrsta keppnislið formúlunnar til að aka opinberlega keppnisbíl búnum fram- og afturvæng eins og þeir munu líta út á næsta ári, en þar er um verulega breytingu að ræða.

Aksturinn átti sér stað á Kembleflugvellinum í Englandi og undir stýri sat ökumaður sem staðið hefur sig vel í keppni í hinni bresku formúlu-3 í ár, Jonathan Kennard.  

Reyndar var um að ræða keppnisbíl frá í ár með vængjum næsta árs, en að öðru leyti hafði bílnum ekki verið umbreytt í samræmi við gjörbreyttar hönnunarreglur fyrir næsta árs.

Æfingarnar í Kemble snerust um stillingar á vængjunum við beinlínuakstur og voru til undirbúnings formlegum vetrarbílprófunum í Barcelona í næstu viku.

Vængirnir verða mun fábreyttari en verið hefur og lausir við hvers kyns vænglinga sem staðið hafa út úr þeim og upp úr. Framvængurinn er auk þess lægri en mörg undanfarin ár. Enn meira áberandi verður breytingin á afturvængnum, hann er bæði hærri og mun mjórri en mörg undanfarin ár. 

Tilgangurinn með breytingunum er að auðvelda návígi ökumanna og þar með gera keppnina skemmtilegri og meira spennandi.

Auk breyttra vængja verða dreifarar sem stýra loftflæði undan afturendanum nýir, bílarnir verða búnir sléttum dekkjum í stað raufaðra og á miðhluta skrokksins verða engir flipar, engar vindskeiðar og engir  vænglingar til að stýra loftflæði um yfirbygginguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert