Endurfundir Ferrarifélaga líklega frostkaldir

Schumacher og Barrichello súrir á svip á verðlaunapalli.
Schumacher og Barrichello súrir á svip á verðlaunapalli. ap

Ferrarifélagarnir fyrrverandi, Michael Schumacher og Rubens Barrichello, munu líklegast eiga frostkalda endurfundi í Brasilíu um helgina. Taka þeir þátt í alþjóðlegu körtumóti sem Felipe Massa stendur fyrir í þágu góðgerðarmála.

Barrichello hefur undanfarið gagnrýnt Schumacher opinskátt. Þar á meðal sagðist hann í vikunni með í fórum sínum „skjöl sem sanni“ að meistarinn fyrrverandi hafi komið beint við sögu í austurríska kappakstrinum alræmda árið 2002.

Þá var Barrichello gert að hleypa Schumacher fram úr svo hann mætti sigra í mótinu. Ferrariliðið var sektað um milljón dollara fyrir atvikið og bann lagt við liðsfyrirmælum í framhaldinu, en framferði Ferrari í Austurríki þótti koma óorði á formúluna.

Barrichello segir að honum hafi verið hótað brottrekstri á lokahringjunum í Austurríki hleypti hann Schumacher ekki fram úr. Var hann lengst af í fyrsta sæti en er átta hringir voru eftir var honum sagt að  hleypa liðsfélaganum fram úr.

Hafi hann skirrst við því og íhugað að hlýða ekki. Samræðurnar í talstöðinni hafi orðið æsingasamar eftir því sem nær marki dró. Undir það síðasta hefði Jean Todt tjáð honum beinlínis að hann yrði rekinn ef hann hleypti ekki Schumacher fram úr.

Lét Barrichello loks undan á síðustu 100 - 200 metrunum. Uppskar Schumacher mikið flaut er á verðlaunapallinn kom og brást hann við með því að ýta félaga sínum upp á efsta þrepið. 

Schumacher hefur brugðist við uppljóstrunum Barrichello og reynt að gera lítið úr þeim. Sagði hann að hann hafi einfaldlega ekki verið nógu hraðskreiður til að vera aðalökumaður Ferrari.

„Það hægir enginn á þér á grundvelli ráðningarsamnings,“ sagði Schumacher. Og bætti við að væru menn hraðskreiðir væru þeir númer eitt í liði.


Barrichello og Schumacher ræðast við í Mónakó í ár.
Barrichello og Schumacher ræðast við í Mónakó í ár. ap
Rubens Barrichello hefur ekið fyrir Honda frá því hann yfirgaf …
Rubens Barrichello hefur ekið fyrir Honda frá því hann yfirgaf Ferrari. mbl.is/hondaf1
Barrichello (l.t.h.) og Michael Schumacher ásamt Jean Todt.
Barrichello (l.t.h.) og Michael Schumacher ásamt Jean Todt. ap
Barrichello var óánægður með hótanir Todt.
Barrichello var óánægður með hótanir Todt. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert