Ferrari vill ekki Hamilton

Massa (t.v.) og Hamilton eru mestu mátar.
Massa (t.v.) og Hamilton eru mestu mátar. ap

Lewis Hamilton sagði nýlega að hann vildi vera hjá McLaren allan sinn feril í formúlu-1. Þetta hefur farið fyrir brjóstið á Ferraristjóranum Luca di Montezemolo því hann segist ekki myndu vilja skipta á heimsmeistaranum Hamilton og sínum manni, Felipe Massa.

Aðspurður um yfirlýsingu Hamiltons í jólaboði Ferrariliðsins sagði Montezemolo, nokkuð pirraður yfir spurningunni: „Lewis Hamilton? Höfum það alveg á hreinu, hann er frábær ökumaður. Var hársbreidd frá titli á fyrsta ári og hampaði honum á öðru ári. Engu að síður, og með allri virðingu, þá myndi ég ekki skipta á þeim Massa.“

Hann sagði að Ferrari myndi velja sína ökuþóra, enginn tæki það að sér fyrir liðið. „Kimi Räikkönen kom til Ferrari og vann titilinn. Hafi Massa ekki unnið titilinn í ár, þá var það okkur sem liði að kenna. Eðlilegt hefði verið að hann ynni titilinn, en hann missti af honum vegna mistaka okkar.

Felipe er einstaklega vinsæll, fyrir þann mann sem hann hefur að geyma, fyrir það hversu frábær ökumaður hann er. Og fyrir hversu vel hann sig bar í ósigri,“ sagði Montezemolo.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert