Jenson Button er reiðubúinn að taka á sig verulega kauplækkun hjá liði sínu svo það geti mætt til leiks í ár. Í raun mun hann keppa kauplaust fyrir arftaka Hondaliðsins og hefur jafnframt boðist til að borga ferða- og uppihaldskostnað sinn og sinna til móta.
Að sögn breska blaðsins The Times bauðst Button til að gefa eftir helming umsamdra launa hjá liðinu til að gera stjórnendum þess kleift að kaupa það af japanska bílafyrirtækinu Honda, sem ákvað í desember sl. að hætta keppni í formúlu-1.Mun það jafngilda 15 milljóna sterlingspunda eftirgjöf næstu þrjú árin.
„Þeir sem sagt hafa að Jenson væri gráðugur glaumgosi ættu að éta hatt sinn. Honum var stætt á því að krefjast fullrar launa - eins og tilteknir bankamenn - og hefði verið með gjörunnið mál í höndum fyrir dómstólum. En slíkt hvarflaði alrei að honum,“ segir innanbúðarmaður hjá liðinu við blaðið.
„Eina sem vakti fyrir honum var að lausn fengist er gerði honum kleift að keyra bíl sem Ross Brawn kæmi á rásmarkið. Allt annað skipti hann engu máli,“ bætir hann við.
Gefur frá sér jafnvirði 2,5 milljarða króna
Button var með samning um að keppa fyrir Honda út 2011 og fyrir það skyldi hann fá 24 milljónir sterlingspunda í aðra hönd. Hefur hann rifið þann samning og fengið nýjan er kveður á um 9 milljóna punda greiðslu á árunum þremur. Gefur hann því eftir 15 milljónir punda, eða um 2,5 milljarða íslenskra króna.
Fyrir utan að taka á sig þessa kauplækkun hefur Button boðist til að keppa launalaust í ár og borga ferða- og uppihaldskostnað til allra móta fyrir sig og fylgdarlið sitt. Jafngildir það um 40 milljónum króna, eða 250.000 punda.