Brawn GP-liðið byrjaði með stæl við fyrstu opinberu bílprófanir sínar í Barcelona. Þar æfa öll formúluliðin og þegar gert var hádegishlé hafði Jenson Button sett besta brautartímann á Brawn-bílnum.
Besti hringur Buttons var 1:21,140 mínútur og var talsvert bil í næsta mann, Jarno Trulli hjá Toyota sem ekið hafði á 1:21,85 mín.
Vegna mismunandi bensínhleðslu einstakra bíla og ólíkra æfingaþátta er varhugavert að draga miklar ályktanir af getu bíla. Engu að síður þykir víst að liðsmönnum Brawn GP leiðist ekki að sitja í efsta sæti tímatökutöflunnar eftir 30 hringja akstur í Barcelona.
Rubens Barrichello mun aka bílnum síðar í vikunni en hann hefur ekki enn sem komið er setið undir stýri hans.