Red Bull liðið mun leggja fram formleg mótmæli við hönnun dreifis undir afturenda Brawnliðsins, komist hann í gegnum forskoðun eftirlitsmanna Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) í Melbourne á morgun, fimmtudag.
Í mótmæli hefur þótt stefna vegna dreifis keppnisbíla bæði Toyota og Williams en málið komst á fullt skrið eftir að bíll Brawnliðsins birtist loks við bílprófanir nýverið.
Þóttu bæði Williams og Toyota hafa túlkað hönnunarforsendur dreifisins frjálslega, með aðeins öðruvísi útfærslu en önnur lið. Kemur það m.a. til af því að Williams fær keppnismótora og gírkassa frá Toyota.
Útfærsla Brawn er síðan gjörólík dreifi allra annarra og mikill hraði bílsins við bílprófanir hefur hert á þrætunni um lögmæti hans. Er dreifirinn með u-laga botni og tveggja hæða.
Ráðgjafi Red Bull, Helmut Marko, hefur staðfest að liðið muni leggja fram mótmæli hleypi skoðunarmenn bílnum í gegn á morgun, fimmtudag. „Hann er ólöglegur, við munum leggja fram mótmæli á fimmtudag ef dreifinum verður ekki breytt í samræmi við reglur. Þessi dreifir bætir hraða bílsins um hálfa sekúndu á hring. Sjö lið eru sannfærð um að hann sé ólöglegur,“ segir Marko við ítalska íþróttablaðið Gazzetta dello Sport.