Lewis Hamilton hjá McLaren hefur keppni í tuttugasta og síðasta sæti í Melbourne á morgun. Ástæðan er sú að skipt verður um gírkassa í bíl hans fyrir morgundaginn.
Liðsstjórinn Martin Whitmarsh segir að skipta hefði mátt um einstaka gíra í kassanum og komast þannig hjá afturfærslu. Ákveðið var hins vegar að skipta alveg um gírkassann í heild sinni og því færist Hamilton úr 15. sæti í það 20.
Hann gat ekkert ekið í annarri lotu tímatökunnar vegna bilunarinnar. Varð því fimmtándi sem er jafnt hans lakasta árangri í tímatökum á formúluferlinum.
Gírkassi verður að endast fjögur mót og réð það þeirri ákvörðun McLaren að skipta alveg um kassa Hamiltons í stað þess að skipta stökum gírum hans út.
Þrátt fyrir árangurinn hét Hamilton því eftir tímatökurnar að sækja sem mest hann mætti í kappakstrinum á morgun.
Bíll Heikki Kovalainen gekk snurðulaust en hann varð þó aðeins í 14. sæti. Sagði hann megin vanda liðsins þann, að bílana skorti rásfestu. Unnið væri hörðum höndum að því að bæta úr því fyrir komandi mót.