Button ósnertanlegur á Brawnbílnum

Button réð sér vart af kæti eftir kappaksturinn.
Button réð sér vart af kæti eftir kappaksturinn. reuter

Jenson Button hjá Brawn GP vann öruggan sigur í ástralska kappakstrinum og Rubens Barrichello félagi hans hafði annað sætið að lokum. Þriðji varð Jarno Trulli á Toyota en er þrír hringir voru eftir lauk keppni Sebastian Vettel hjá Red Bull og Roberts Kubica hjá BMW um annað sætið með árekstri.

Kubica var á mikilli siglingu í lokalotu sinni, á mýkri dekkjum, og dró Vettel hratt uppi. Tókust þeir á í návígi og vildi hvorugur gefa neitt eftir, með þeirri afleiðingu að bílar þeirra skullu nógu harkalega saman til að binda enda á keppni beggja.

Button hóf keppni á ráspól og var aldrei ógnað, ekki heldur þótt öryggisbíll væri kallaður í brautina en við það varð forskot hans að engu. Jók hann það strax aftur er öryggisbíllinn var kallaður úr brautinni.

Barrichello hóf keppni annar en mistókst í ræsingunni, skemmdi væng við samstuð í fyrstu beygju og féll niður í miðjan hóp. Vann sig smám saman upp á við aftur og var orðinn fjórði en hreppti annað sætið við brottfall Vettels og Kubica. Við óhapp þeirra var öryggisbíllinn kallaður út öðru sinni en aðeins þrír hringir voru þá eftir.

Sakir yfirburða Brawnbílanna má segja að Golíat hafi verið lagður að velli. Stórlið Ferrari og McLaren hurfu alveg í skuggan, en báðir ökuþórar Ferrari féllu úr leik vegna bilana og Heikki Kovalainen hjá McLaren laskaði sinn bíl í árekstri í fyrstu beygju og hætti.

Árangur Trulli er athyglisverður í ljósi þess, að hann hóf keppni í bílskúrareininni þar sem afturvængur bíla Toyota í tímatökunum stóðst ekki reglur. Hið sama má segja um Lewis Hamilton hjá McLaren sem hóf keppni aftastur, á 18. rásmarki, og Timo Glock hjá Toyota, sem lagði einnig af stað úr bílskúrareininni. Komust þeir allir fljótt talsvert fram á við í keppendaröðinni vegna óhappa í fyrstu beygju, þar sem fjöldi bíla kom við sögu.

Sigurinn er sá annar sem Button vinnur á ferlinum. Hinn fyrri vann hann í ungverska kappakstrinum fyrir fjórum árum er liðið bar nafnið BAR. Í millitíðinni hét það Honda en nú Brawn. Og fyrir aðeins mánuði eða svo var því bjargað frá að hverfa úr keppni, í framhaldi af því að Honda ákvað að draga sig úr keppni. Í ljósi þess er árangurBrawn, tvöfaldur sigur í Melbourne, undraverður.

Úrslit kappakstursins verða ekki endanlega ákveðin fyrr en 14. apríl er áfrýjunardómstóll tekur fyrir klögumál vegna útbúnaðar á bílum Brawn, Toyota og Williams. Eftirlitsmenn kappakstursins í Melbourne úrskurðuðu bílana löglega til keppni en þeirri ákvörðun var áfrýjað.

Og vilji svo ólíklega til að liðin þrjú tapi málinu og bílar þeirra þar með dæmdir úr leik, yrði Lewis Hamilton hjá McLaren sigurvegari mótsins, Fernando Alonso hjá Renault annar og nýliðinn Segastien Buemi hjá Toro Rosso þriðji.

Úrslit kappakstursins urðu annars sem hér segir:

Röð Ökuþór bíll Tími
1. Button Brawn 1:34.15.784
2. Barrichello Brawn +0.807
3. Trulli Toyota +1.604
4. Hamilton McLaren +2.914
5. Glock Toyota +4.435
6. Alonso Renault +4.879
7. Rosberg Williams +5.722
8. Buemi Toro Rosso +6.004
9. Bourdais Toro Rosso +6.298
10. Sutil Force India +6.335
11. Heidfeld BMW +7.085
12. Fisichella Force India +7.374
13. Webber Red Bull +1 hringur
14. Vettel Red Bull +2 hringir
15. Kubica BMW +3 hringir
16. Räikkönen Ferrari +3 hringir
23. Massa Ferrari +12 hringir
23. Piquet Renault +33 hringir
23. Nakajima Williams +40 hringir
23. Kovalainen McLaren +57 hringir
Button og liðsmenn Brawn fagna sigri í Melbourne.
Button og liðsmenn Brawn fagna sigri í Melbourne. reuter
Button rauk í burtu strax í upphafi í Melbourne.
Button rauk í burtu strax í upphafi í Melbourne.
Það var eins og Button væri að vinna sinn fyrsta …
Það var eins og Button væri að vinna sinn fyrsta sigur í formúlunni. reuters
Fögnuður Buttons var fölskvalaus eftir keppni í Melbourne.
Fögnuður Buttons var fölskvalaus eftir keppni í Melbourne. reuter
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert