Kristján Einar Kristjánsson hóf í dag keppni í formúlu-3, í Opnu F3 Evrópumótaröðinni svonefndu. Keppir hann fyrir breska liðið West-Tec sem verið hefur sigursælt í breskum og evrópskum kappakstri undanfarna tvo áratugi.
Í vetur var Kristján Einar til skoðunar hjá Newman-Wachs liðinu í Bandaríkjunum og stóðu þar dyr honum opnar, en ekki gekk að fjármagna þátttökuna.
Mótlætið herti hans nánustu sem hófust handa við að leita hófanna annars staðar. Niðurstaðan var keppni í opnu F3 Evrópumótaröðinni, sem fer að mestu leyti fram á Spáni. Þó er einnig keppt í Imola á Ítalíu, Spa í Belgíu, Donington í Englandi og Magny-Cours í Frakklandi.
„Ég vildi ekki senda neitt á fjölmiðla fyrr en við værum komin með allt undirskrifað og okkar mann á brautina. Mitt í svartnættinu heima þá fundum við ljós í myrkrinu. Náðum við að fjármagna það sem þurfti til í fyrri hluta keppnistímabilsins.
Bíll Kristjáns Einars tileinkaður bjartsýni og nýju upphafi
Þannig að Íslendingurinn er sem sé mættur til leiks á bíl sem er tileinkaður er Íslandi, bjartsýni og nýju upphafi,“ segir Vilborg Einarsdóttir, móðir Kristjáns Einars, sem verið hefur stoð hans og stytta og stærsta hjálparhella á keppnisferli hans.
Því er ekki undra að henni hafi verið létt þegar Kristján Einar hóf þátttöku með liði sínu í Valencia á Spáni í dag. „Ég fékk alveg tárin í augun þegar bíllinn fór út á braut í tímatökum í morgun,“ segir hún.
Keppt er á dæmigerðum formúlu-3 bílum sem Dallara-fyrirtækið smíðar en mótorar allra keppnisbílanna eru frá Fiat fengnir.
Hjá öflugu liði
Team West-Tec hefur náð góðum árangri á undanförnum árum í hinni spænsku formúlu-3, sem Opnu F3 Evrópumótaröðinni tekur við af, og í Speedcar-mótunum. Þá teflir liðið fram ökumönnum í alþjóðaflokki hinnar bresku formúlu-3 Le Mans-mótaröðinni. Kristján Einar er því vel settur hjá þessu liði.
Liðsfélagi hans hjá West-Tec er Norðmaðurinn Thor Christian Ebbesvik sem náð hefur góðum árangri og unnið mörg mót í hinni spænsku formúlu-3. Þar á meðal kappakstur sem fram fór á undan formúlu-1 kappakstrinum í Valencia í fyrra.