Liðum sem hóta að hætta fjölgar

Red Bull vann tvöfaldan sigur í Kínakappakstrinum.
Red Bull vann tvöfaldan sigur í Kínakappakstrinum. mbl.is/redbullf1

Það er ekki nóg með að bæði Ferrari, Toyota og BMW hafi hótað að tilkynna ekki þátttöku í formúlu-1 fyrir árið 2010 vegna óánægju með fyrirhugaðar reglubreytingar Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA). Nú hefur Red Bull liðið bæst í hópinn, en eigandi þess á einnig Toro Rosso.

Frestur til að tilkynna þátttöku í formúlunni á næsta ári rennur út 29. maí næstkomandi. Fjöldi liða formúlunnar hefur lýst megnri óánægju með fyrirætlanir FIA sem farið hefur fram án samráðs við liðinog boðað breytingar á tæknireglum, keppnisfyrirkomulagi og fjármálum liðanna.

Samtök formúluliðanna, FOTA, hafa krafist fundar með FIA um málið og er búist við að af honum verði eftir hálfan mánuði tæpan, á kappaksturshelginni í Mónakó. 

Forseti FIA, Max Mosley, hefur hleypt illu blóði í deiluna með yfirlýsingum um að formúlan gæti lifað án Ferrari. Lýsti hann því yfir er forseti Ferrari og forsprakki FOTA, Luca di Montezemolo, lýsti andúð sinni á boðuðum  einhliða aðgerðum FIA.

Megin ágreiningsefnið er sú ákvörðun Mosley að setja 45 milljóna evra þak á útgjöld liða og hönnunarfrelsi þeirra sem á það fallast. Keppnislið sem vildu kosta meiru til verða hins vegar að sæta ströngum forsendum um hönnun bíla sinna, ólíkt hinum liðunum.

Þetta fyrirkomulag hefði í för með sér a.m.k. tvenns  konar gerðir keppnisbíla. Eigandi Red Bull tekur undir með öðrum forsvarsmönnum er hann segir við blaðið Salzburger Nachrichten í Austurríki: „Skilyrði til þess að við tilkynnum þátttöku [2010]  á næsta ári eru ekki fyrir hendi.“ 

Og að óbreyttu ástandi, bætti hann við:  „Af núverandi liðum verða aðeins tvö eða þrjú eftir“.


Max Mosley þykir óbilgjarn.
Max Mosley þykir óbilgjarn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert