Hamilton hótar að hætta

Hamilton er óhress með fyrirætlanir FIA.
Hamilton er óhress með fyrirætlanir FIA. mbl.is/mclarenf1

Lewis Hamilton, ríkjandi heimsmeistari ökuþóra í formúlu-1, er genginn til liðs við aðra ökuþóra og átta keppnislið og segist munu hætta keppni í íþróttinni við vertíðarlok, falli  Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) ekki frá áformum um nýjar reglur og útgjaldaþak á liðin.

Bæði Felipe Massa hjá Ferrari og Fernando Alonso hjá Renault hafa talað opinskátt um að þeir hafi engan áhuga á að keppa í formúlunni ef fram heldur sem horft hefur.Þeir munu snúa sér að öðrum kappakstursgreinum.

Báðir kveðast vilja keppa í æðstu grein akstursíþróttanna en segjast óttast að í það stefni, að vegna harkalegra krafna um lækkun tilkostnaðar standi  formúla-1 ekki lengur undir nafni og verði ekki lengur eftirsóknarverðasta keppnisgreinin.

Hamilton kveðst ekki ætla að segja skilið við McLaren og heldur keppa með því verði ný mótaröð stofnuð af keppnisliðunum átta sem vilja að óbreyttu ekki vera lengur með í formúlu-1 eftir vertíðarlok.

Samtök ökumanna formúluliðanna hafa lýst eindregnum stuðningi við samtök formúluliðanna (FOTA) í deilum þeirra við FIA um framtíð formúlu-1.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert