FIA í mál við FOTA

Gestur gengur framhjá flutningabíl FIA í Silverstone.
Gestur gengur framhjá flutningabíl FIA í Silverstone. reuters

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) hefur ákveðið að hefja lögsókn gegn formúluliðunum sem hyggjast stofna til nýrrar kappaksturskeppni, einkum og sér í lagi þó Ferrari.

Samtök formúluliðanna (FOTA) ákváðu seint í gærkvöldi, eftir misheppnaðar tilraunir til að ná sáttum í deilumálum við FIA, að efna til nýrrar mótaraðar á næsta ári.

Þar er um að ræða Ferrari, McLaren, Renault, BMW, Toyota, Brawn, Red Bull og Toro Rosso. Auk þeirra keppa nú Williams og Force India í formúlu-1.

FIA sagði nú síðdegis, að liðin, og þó einkum og sér í lagi Ferrari, séu  skuldbundin sambandinu og geti ekki brotið gegn þeim. Því hótar sambandið þeim nú lögsókn.

Jafnframt hefur FIA ákveðið að fresta því að birta lista yfir keppnislið formúlu-1 á næsta ári, en í morgun sagðist sambandið ætla að birta hann á morgun.

„Aðgerðir FOTA sem heildar, og þó einkum og sér í lagi Ferrari, jafngilda alvarlegum lagabrotum og vísvitandi röskun á samningslegu sambandi, beinum brotum á lagalegum skyldum Ferrari og alvarlegum brotum á keppnisreglum. FIA mun gefa út stefnu án tafar,“ segir í yfirlýsingu FIA.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert