Vettel minnkar forskot Buttons

Vettel sigrar í Silverstone.
Vettel sigrar í Silverstone. reuters

Sebastian Vettel hjá Red Bull var í þessu að vinna breska kappaksturinn í Silverstone og liðsfélagi hans Mark Webber færði liðinu tvöfaldan sigur er hann vann sig fram úr Rubens Barrichello hjá Brawn í þjónustustoppum.  Með úrslitunum minnkar forskot Jenson Button hjá Brawn örlítið í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra.

Í stað 26 stiga forskots fyrir mótið hefur Button eftir breska kappaksturinn 23 stiga forskot á Barrichello og 25 stig á Vettel. Sömuleiðis minnkaði forskot Brawn á Red Bull í keppni bílsmiða úr 39,5 stigum í 30,5 stig.

Sigurinn er sá þriðji sem Vettel vinnur en sá fyrsti á þurrum brautum. Fyrsta sigurinn vann hann í rigningu í Monza í fyrra sem liðsmaður Toro Rosso og hinn næsta í kínverska kappakstrinum fyrr á þessu ári.

Vettel réði ferðinni og drottnaði frá fyrstu sekúndum en hann hóf keppnina á ráspól og átti besta hring dagsins. Webber komst fram úr Barrichello í lok fyrra þjónustustopps sem hann tók hring seinna en Brawnþórinn. Eftir það dróst Barrichello aftur úr en hélt þriðja sæti.

Með yfirburðum ökuþóra Red Bull má ætla að keppnin um heimsmeistaratitla formúlunnar verði ekki sá dans á rósum fyrir Brawnliða sem halda mátti eftir fyrstu sjö mót ársins.

Button lét aldrei til sín taka á heimavelli eins og hann hafði vænst til. Var áttundi eftir fyrsta hring og hélst þar mjög lengi, eða þar til 11 hringir  voru eftir. Tók hann sitt seinna stopp mjög seint en vann sig fram úr Jarno Trulli og vann sig á því fram úr Jarno Trulli hjá Toyota og Kimi Räikkönen hjá Ferrari og varð sjötti, sem er hans lakasti árangur á árinu. 

Felipe Massa hjá Ferrari átti góðan dag og vann sig úyr 11. sæti á rásmarki í fjórða sætið á endamarki. Ók mjög langt í fyrri lotu, komst fram úr Nico Rosberg hjá Williams í seinna stoppi og ógnaði um skeið Barrichello. Talsvert kvað líka að Rosberg og greinilegt að Williamsliðinu hefur tekist að bæta bíl sinn mjög að undanförnu. 

Giancarlo Fisichella hjá Force India sýndi að lengi lifir í gömlum glæðum og ók til tíunda sætis á verulega betrumbættum bíl. Var síðustu hringina í skottinu á Räikkönen og Timo Glock hjá Toyota. Hann átti góða ræsingu og smeygði sér síðan djarflega fram úr Nick Heidfeld hjá BMW og Fernando Alonso hjá Renault er þeir fóru full vítt báðir í harðri stöðubaráttu í Stowe-beygjunni á frystu hringjum.

Kazuki Nakajima hjá Williams var öflugur framan af og var fjórði fram að fyrsta bensínstoppi en í gær náði hann besta árangri ferilsins í tímatökum, fimmta sæti. Hann var hins vegar fyrstur til að stoppa og galt herfræðinnar því hann féll niður um nokkur sæti í báðum stoppum og varð ellefti.

Vettel hóf keppni af ráspól og var aldrei ógnað.
Vettel hóf keppni af ráspól og var aldrei ógnað. reuters
Vettel stakk af í byrjun og jók forskot sitt jafnt …
Vettel stakk af í byrjun og jók forskot sitt jafnt og þétt, enda á mun léttari bíl en Barrichello og Webber. reuters
Vettel ekur yfir endamarkið í Silverstone.
Vettel ekur yfir endamarkið í Silverstone. reuters
Vettel tók sigurstökk á verðlaunapallinum.
Vettel tók sigurstökk á verðlaunapallinum. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert