Bandaríska konan Danica Patrick hefur svo gott sem útilokað að hún snúi sér að keppni í formúlu-1. Hún hefur verið orðuð við nýja liðið US F1 og forsvarsmenn þess lýst sig viljuga til að ráða hana.
Patrick er meðal fremstu ökuþóra í bandarísku IndyCar-keppninni og framarlega í stigakeppni um meistaratitil í þeirri grein.Um er að ræða nokkurs konar systurkeppni formúlu-1.
Samningur Patrick við Andretti Green Racing rennur út í vertíðarlok og því skoðar hún um þessar mundir möguleika sína fyrir næsta ár. Meðal þess er að keppa áfram í IndyCar eða snúa sér að NASCAR götubílakeppninni. Svo virðist sem hún vilji ekki reyna fyrir sér í formúlu-1.
Hún var spurð af blaðinu Los Angeles Times, hvort hún hafi þrengt valið. „Ég myndi segja að líklega verði formúla-1 ekki fyrir valinu,“ svarar hún.
US F1 liðið hefur lýst því að það vilji bandaríska ökuþóra í bílum sínum. Þrátt fyrir yfirlýsingar um áhuga liðsins á Patrick segir hún liðið ekki hafa sett sig í samband við hana. Hún segir það heldur ekki „vilja hjartans“ að fara til keppni í formúlu-1. Kveðst hún helst vilja vera um kyrrt í Bandaríkjunum, nálægt fjölskyldu sinni og vinum.