Michael Schumacher ætti að vera fyrsti valkostur Ferrari er liðið velur ökumann til að keppa í stað Felipe Massa sem er úr leik í bili vegna meiðsla sem hann hlaut í slysi í tímatökunum í Búdapest.
Þessarar skioðunar er Niki Lauda, fyrrverandi heimsmeistari ökumanna í formúlu-1 og keppandi Ferrari um skeið.
. „Hver er á lausu? Enginn sem kemst með tærnar þar sem Michael er með hælana. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér, það er enginn betri,“ sagði Lauda.
Og umboðsmaður heimsmeistarans fyrrverandi, Willi Weber, sagði við þýsku fréttastofuna SID að hann efaðist um að Schumacher væri tilbúinn til að íhuga að snúa aftur til keppni. „Það fæ ég ekki séð. Ferrari er með tvo góða reynsluökuþóra sem er áfram um að keppa ef tækifæri gefst,“ sagði Weber.
Schumacher, stendur á fertugu. Hann varð á sínum tíma sjö sinnum heimsmeistari ökumanna og vann 91 mót. Hann hengdi upp keppnishjálminn við lok keppnistímabilsins 2006. Þrátt fyrir að hafa verið að dufla við keppni á mótorhjólum hefur hann engin merki sýnt um áhuga á því að keppa á ný í formúlu-1.
Lauda telur að tveir til þrír mánuðir líði þar til Massa verði aftur tilbúinn til keppni. „Hann þarf að ákveða sig, og fyrir formúluna, sem er hvort eð er nokkuð sjúk núna eins og áhorfendaleysið sýnir, myndi hann auka aðsókina 20-30%,“ segir hann.
„Reynsluökuþórar eru gagnslausir,“ segir hann um þá Luca Badoer og Marc Gene sem starfa sem tilraunaökuþórar Ferrari. Badoer er 38 ára og keppti á sínum tíma í 49 mótum með Minardi og Forti á árunum 1193 til 1999 án þess að vinna stig. Gene er 35 ára og keppti m.a. á sínum tíma með BAR.