Renaultliðið vann áfrýjunarmál sitt fyrir dómstóli Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA), en úrskurður dómstólsins var birtur rétt í þessu í París. Getur liðið því tekið þátt í Evrópukappakstrinum í Valencia á Spáni um helgina.
Dómstóllinn tók til greina þær varnir Renault að úrskurður dómara ungverska kappakstursins hafi verið úr hófi fram og harður. Ákváðu þeir að Renault fengi ekki að keppa í Valencia vegna hjóls sem losnaði undan bíl Fernando Alonso.
Úrskurður mótsdómaranna var ógiltur en í staðinn var Renault dæmt til að borga 50.000 dollara í sekt, enda gekkst liðið við því að það hefði brotið keppnisreglur með því að hleypa Alonso úr þjónustuhléinu þótt felguró væri ekki tryggilega föst.
Niðurstaðan er sambærileg þeirri refsingu sem Red Bull var dæmt til í ástralska kappakstrinum, en þá losnaði hjól undan bíl Sebastians Vettel og liðið hlýddi ekki fyrirmælum dómaranna að segja honum að leggja bílnum samstundis.