Rubens Barrichello hjá Brawnliðinu var í þessu að vinna Evrópukappaksturinn í Valencia á Spáni. Er það tíundi sigur hans á ferlinum í formúlu-1 og fyrsti sigur hans með Brawn. Síðast vann Barrichello kappakstur fyrir fimm árum, árið 2004 sem liðsmaður Ferrari.
Í öðru sæti varð Lewis Hamilton hjá McLaren sem hóf keppni af ráspól. Þriðji varð Kimi Räikkönen hjá Ferrari Fjórði varð Heikki Kovalainen hjá McLaren sem hóf keppni í öðru sæti. Stóðst hann atlögur Nico Rosberg hjá Williams á síðustu hringjunum.
Sjötti varð Fernando Alonso hjá Renault sem hóf keppni í áttunda sæti og gladdi heimamenn og landa sína með sókndirfsku frá fyrsta hring.
McLarenþórarnir hófu keppni af fremstu rásröð en Hamilton tókst ekki að nýta sér að hafa Kovalainen milli sín og Barrichello til að byggja upp forskot. Var ljóst að Brawnþórinn var hraðskreiðari en Kovalainen en hann varð að bíða færis fram að fyrsta þjónustustoppi til að komast fram úr.
Er hann kom út í brautina hafði hann dregið Hamilton alveg uppi og stefndi í einvígi þeirra. Eins og oft vill verða eru það mistök eða óhöpp af ýmsu tagi sem geta valdið kaflaskilum í keppni. Slíkt henti Hamilton í seinna stoppinu er þjónustusveit hans klúðraði dekkjaskiptum. Tók stoppið þar af leiðandi mun lengri tíma.
Á þessu græddi Barrichello, komst fram úr og gat byggt upp nógu mikið forskot til að koma fyrir framan Hamilton í brautina út úr seinna stoppi sínu. Hann sýndi engin ellimerki í kappakstrinum en hann er 37 ára. Vitaskuld hjálpuðu mistök McLaren til en lykillinn að sigri hans voru þó góður bíll og góð og vel útfærð keppnisáætlun.
Barrichello tileinkaði vini sínum og landa Felipe Massa sigurinn en sá var fjarverandi vegna meiðsla. Á hjálm hans voru skrifuð skilaboð til Massa; "sé þig sem fyrst á brautinni, félagi".
Brawn styrkir stöðu sína
Brawnliðið styrkti stöðu sína með sigri Barrichello og sjöunda sæti Jensons Button. Hlaut 12 stig en helstu keppinautarnir í báðum titilkeppnum, Red Bull, fer stigalaust frá Valencia. Sebastian Vettel var lengst af fjórði en féll úr leik vegna mótorbilunar og Mark Webber féll á lokakaflanum úr stigasæti og niður í níunda sæti.
Forysta Button í keppni ökumanna minnkaði úr 18,5 stigum í 18 en Barrichello er á ný kominn upp í annað sætið; upp fyrir Webber og Vettel. Er Button með 72 stig, Barrichello 54, Webber 51,5 og Vettel 47.
Í keppni bílsmiða hefur Brawn 126 stig, Red Bull 98,5, Ferrari 46 og McLaren 40. Með árangrinum í dag komst McLaRení fjórða sætið í fyrsta sinn á árinu, komst upp fyrir Toyota sem hefur 38,5 stig.