Keppnisliði Renault í formúlu-1 hefur verið vikið skilorðsbundið úr keppninni í tvö ár. Þá hefur Flavio Briatore, fyrrum stjórnandi liðsins, verið settur í ótímabundið bann en Briatore sagði af sér starfinu í síðustu viku. Pat Symonds, fyrrum tæknistjóri, hefur verið settur í 5 ára bann.
Alþjóða akstursíþróttasambandið, FIA, komst að þessari niðurstöðu í dag. Ástæðan er að Renaultliðið er sakað um að hafa beðið Nelson Piquet, fyrrum ökumann liðsins, um að lenda vísvitandi í árekstri í kappakstrinum í Singapúr í fyrra til að reyna að hjálpa Fernando Alonso, ökuþór liðsins, til að sigra.
Renault lýsti því yfir í síðustu viku að liðið myndi ekki reyna að verjast kærunni og jafnframt létu bæði Briatore og Symonds af störfum. FIA ákvað jafnframt að fara ekki fram á það að Piquet svaraði til saka. Alonso var einnig hreinsaður af allri aðild að málinu.
Brottvísun Renault í formúlu-1 keppninni er skilorðsbundin til ársins 2011 sem þýðir, að brjóti liðið ekki frekar af sér á þeim tíma getur það haldið áfram þátttöku.
Renault sagði, að innri rannsókn hefði leitt í ljós að þeir Briatore, Symonds og Piquet hefðu sammælst um að valda árekstrinum og engir aðrir hefðu tengst málinu. Niðurstaða FIA benti til þess sama.