Button heimsmeistari

Button fagnaði innilega við lok kappakstursins.
Button fagnaði innilega við lok kappakstursins.

Jenson Button hjá Brawn var í þessu að vinna heimsmeistaratitil ökumanna í formúlu-1. Dugði honum að verða fimmti í mark í brasilíska kappakstrinum. Sigur í mótinu vann Mark Webber hjá Red Bull, annar varð Robert Kubica á BMW og þriðji Lewis Hamilton á McLaren.

Button hóf keppni í 14. sæti en ók af meiri grimmd en hann hefur oftast sýnt og vann sig fram úr hverjum keppinautnum af öðrum. Liðsfélagi hans Rubens Barrichello hóf keppni af ráspól en tapaði forystunni í fyrsta þjónustustoppi til Webbers sem drottnaði kappaksturinn eftir það og vann auðveldan sigur.

Undir lokin sprakk dekk hjá Barrichello svo úr því lak hægt og rólega. Neyddist hann til að skipta um fjórum hringjum frá endamarki. Féll hann við það niður í áttunda sæti úr því þriðja. Og missti í leiðinni Sebastian Vettel hjá Red Bull fram úr sér í titilslagnum og féll niður í þriðja sæti.

Ásamt því sem Button varð meistari ökumanna í Sao Paulo hreppti Brawnliðið heimsmeistaratitil bílsmiða. Niðurstaðan er ævintýraleg fyrir liðið sem stofnað var úr rústum Hondaliðsins og lengi vel var óvíst að það gæti yfirleitt verið með í ár.

Blíðviðri var er keppnin fór fram og ólíkar aðstæður en í tímatökunni í gær. Þá var úrhelli svo fresta varð henni hvað eftir annað. Spáð hafði verið rigningu í dag en veðurkerfin breyttust frá í gær og himinn blár í dag og bjartur.

Kappaksturinn var mjög tíðindasamu.r frá fyrstu sekúndu. Mikið um framúrakstur og hörð einvígi en í mörgum þeirra átti Button hlut að máli og vann hann glímur sínar allar. Á fyrsta hring rákust Adrian Sutil hjá Force India og Jarno Trulli hjá Toyota saman og féllu úr leik. Bíll Sutils rann inn á brautina aftur og á Fernando Alonso, sem við það var úr leik einnig.

Trulli stökk úr braki Toyotunnar og hljóp hinn reiðasti til Sutil og reifst og skammaðist. 

Kimi Räikkönen hjá Ferrari átti góða ræsingu, vann sig úr fimmta sæti í það þriðja en var fullbráður er hann ætlaði sér annað sætið. Webber varðist honum með þeim afleiðingum að Räikkönen rak trjónuna aftan í hann og braut framvænginn. Varð hann að fara inn að bílskúr eftir nýrri trjónu.

Loks féll Kazuki Nakajima hjá Williams úr leik er hann ók aftan á landa sinn Kamui Kobayashi hjá Toyota misheppnaðri í tilraun til framúraksturs á hraðasta kafla brautarinnar. Brotnaði framvængur hans svo bíllinn flaug stjórnlaust af augum og hafnaði á öryggisvegg.

 Kamui Kobayashi var að keppa í fyrsta sinn í formúlu-1 en hann hljóp í skarð Timo Glock sem er ekki góður af meiðslum frá í japanska kappakstrinum. Kobayashi kom mjög á óvart með einkar góðri frammistöðu. Varðist hann t.d. atlögum Buttons hvað eftir annað og hélt honum fyrir aftan sig í marga hringi. Þar er eflaust framtíðarmaður á ferð.

Button var býsna lengi að komast fram úr Kobayashi hjá …
Button var býsna lengi að komast fram úr Kobayashi hjá Toyota.
Button veifar áhorfendum fyrir upphaf kappakstursins.
Button veifar áhorfendum fyrir upphaf kappakstursins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert