Nafn Nick Heidfeld hjá BMW hefur lítið borið á góma vegna tilfærslu ökumanna milli liða fyrir næsta ár. Því er nú haldið fram, að hann komi til álita sem ökuþór McLaren því Lewis Hamilton vilji ekki öflugri keppinauta.
Þýska blaðið Abendzeitung heldur því fram, að Hamilton leggist hart gegn því að annar hvor þeirra Nico Rosberg eða Kimi Räikkönen verði ráðnir til McLaren á næsta ári.
Því sé Heidfeld skyndilega kandídat sem keppnisþór McLaren á næsta ári, en hann hefur einnig verið bendlaður við sæti hjá Renault.
„Hann er vanmetnasti ökumaður formúlu-1,“ segir liðsstjórinn Martin Whitmarsh hjá McLaren um Heidfeld við blaðið. Sæti verður hugsanlega til fyrir hann hjá liðinu sem mun ekki vera á því að framlengja samning við Heikki Kovalainen.
Og Mercedesstjórinn Norbert Haug, sem er einn af aðalstjórnendum McLaren líka, segir: „Hann kæmi með áratugar reynslu og styrkrar frammistöðu.“
Heidfeld hóf keppni í formúlu-1 árið 2000 með Prostliðinu franska, en keppti síðan með Sauber, Jordan, Williams og síðustu ár með BMW. Útbreiddasta blað Þýskalands, Bild, segir í dag, að hann sé aftur á leið til Frakklands. Sé hann í hópi ökumanna sem keppi um sæti hjá Renault á næsta ári.