Sebastian Vettel var ánægður með sigur sinn í kappakstrinum í Abu Dhabi og sagði hann fullkominn endi á tímabilinu. Vettel drottnaði í Yas Marina-brautinni eftir að Lewis Hamilton hjá McLaren var fallinn úr leik. Vann hann sinn fjórða mótssigur á árinu og innsiglaði annað sæti í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra.
Vettel hóf kappaksturinn í öðru sæti og sleppti Hamilton aldrei langt frá sér. Er sá síðarnefndi féll úr leik vegna bremsubilunar var sigur hans aldrei í hættu. Og til að undirstrika ágæti Red Bull bílanna varð liðsfélagi hans Mark Webber í öðru sæti.
„Þetta var frábær kappakstur, við tókum vel af stað en það dugði þó ekki til að komast fram úr Lewis, en munaði þó litlu. Ég var hissa á því en síðan naut hann KERS og slapp í burtu. Eftir það tókst mér þó að halda í við hann og því mikil spenna fyrir þjónustustoppin.
Eftir það varð hann að hætta en keppnin var frábær. Ég gat ráðið ferðinni þar sem gott bil var í Jenson [Button hjá Brawn] og Mark. Bíllinn var frábær á báðum dekkjagerðunum. Það var ánægjulegt að sitja í honum í kvöld,“ sagði Vettel.
„Ef við drögum vertíðina saman, þá var gengið upp og niður. Við höfum verið mjög öflugir á seinni helmingnum, fjórði tvöfaldi sigur Red Bull í dag. Þetta var fullkominn endir á keppnistímabilinu, á toppnum,“ sagði Vettel einnig.
Hann sagðist stoltur af öðru sætinu í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Ekki hafi verið hægt að hugsa sér betri niðurstöðu en gulltryggja sætið með sigri.
Vettel segist vona að liðið haldi sama dampi á næsta ári svo honum verði kleift að keppa á toppnum 2010. „Þetta tímabil var mjög sérstakt. Ég man þá tíma fyrir tveimur árum eða svo, að þessir [Webber og Button] voru að keppa en ég áhorfandi. Vonandi verður næsta ár eins spennandi og þetta, ég hlakka þegar til þess.