Kobayashi greip gæsina

Kobayashi ræðir við tæknimann hjá Toyotaliðinu.
Kobayashi ræðir við tæknimann hjá Toyotaliðinu. mbl.is/toyotaf1

Segja má að Kamui Kobayashi hafi gripið gæsina meðan hún gafst, því með frábærri frammistöðu í Brasilíu og Abu dhabi hefur hann að öllum líkindum tryggt sér sæti sem ökumaður Toyota á næsta ári.

Kobayashi hljóp í skarðið fyrir Timo Glock í Brasilíu og svo aftur í lokamótinu í Abu Dhabi í gær. Í þessum tveimur fyrstu mótum hans í formúlu-1 sló hann í gegn og hefur svo gott sem sannfært stjórnendur Toyotaliðsins um að honum beri sæti í liðinu 2010.

Kobayashi varð 11. í tímatökunni í Sao Paulo og var um tíma í sjötta sæti í kappakstrinum. Þótti hann koma vel frá návígjum við sér miklu reyndari keppendur og verjast vel.

Aftur varð hann ellefti í tímatökunni í Abu Dhabi og hafnaði að lokum í sjötta sæti í keppninni. Með djarfri keppnisáætlun sem byggði á aðeins einu stoppi komst hann um tíma upp í þriðja sæti. Og í leiðinni vann hann spennandi rimmu í nokkrum beygjum við sjálfan heimsmeistarann Jenson Button.

Kobayashi lét til sín taka strax á fyrstu metrunum og tók þá m.a. fram úr öðrum meistara, Kimi Räikkönen hjá Ferrari. Honum tókst líka það sem allir ökumenn þrá, að verða á undan liðsfélaga sínum, hinum mjög svo reynda Jarno Trulli.

Toyotaliðið mun ekki geta tekið ákvarðanir um ökumenn næsta árs fyrr en fjármál liðsins á næsta ári komast á hreint. Það verður væntanlega ekki fyrr en eftir stjórnarfund móðurfélagsins, japanska bílrisans samnefnda, 15. nóvember.

Kobayashi er 23 ára gamall og meistari í Asíuröðinni í GP2-formúlunni. Honum gekk hins vegar ekki sérlega vel í aðalröðinni í GP2, sem fram fer samhliða formúlu-1 mótunum.

Kobayashi í kappakstrinum í Abu Dhabi.
Kobayashi í kappakstrinum í Abu Dhabi. mbl.is/toyotaf1
Kobayashi verst Button og Nakajima í Sao Paulo.
Kobayashi verst Button og Nakajima í Sao Paulo. mbl.is/toyotaf1
Kobayashi (t.h.) með Trulli.
Kobayashi (t.h.) með Trulli. mbl.is/toyotaf1
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert