Ferrari varð í dag fyrst formúluliðanna til að frumsýna 2010-bíl sinn. Aflýsa varð hins vegar ráðgerðum frumakstri Felipe Massa á bílnum í Fiorano-brautinni vegna ísingar.
Með nýja bílnum gerir Ferrari sér vonir um að blanda sér aftur í keppnina um titla formúlunnar eftir erfiða og árangurslega snauða keppnistíð í fyrra. Hann hefur verið lengur í hönnun og þróun en margir fyrrverandi bílar Ferrari, eða frá því snemma í fyrra.
Í fljótu bragði og við samanburð á myndum af bílnum í ár og þeim frá í fyrra er að sjá talsverðar breytingar á hönnuninni milli ára. Einna mest áberandi er hvernig hliðar frambyggingarinnar hafa verið hækkaðar upp frá og meðsvæðinu yfir framvængnum. Svipar þessu til lögunar framhluta bíls Red Bull frá í fyrra.
Einnig eru hliðarbelgirnir áberandi öðruvísi að ytri lögun. Afturvængurinn er og mjög breyttur en erfitt er að meta hvort hann sé lægri, eins og ætla mætti við fyrstu sýn, en verið getur að myndhornið sé ekki hið sama á báðu myndum.
Þegar horft er ofan á báða bíla er að sjá sem 2010-bíllinn sé með lengra hjólhaf en frá í fyrra. Vélarhúsið er áberandi umfangsmeira í ár og skýrist það fyrst og fremst af því að nú eru tvöfalt stærri bensíntankar í bílunum en í fyrra.
Ferrari vann aðeins einn kappakstur á vertíðinni 2009 og hafnaði í fjórða sæti í keppni bílsmiða, langt á eftir meistaraliði Brawn. Í ár gera Ferrarimenn sér hins vegar háleitar vonir um árangur, ekki síst eftir að tvöfaldur fyrrverandi meistari, Fernando Alonso, er genginn til liðs við þá.
„Keppnin í ár er okkur mikilvæg. Af ýmsum ástæðum var síðasta keppnistímabil ekki jákvætt. Þess vegna ætlum við að gera þennan bíl samkeppnisfæran - það er það sem Ferrari verðskuldar,“ sagði liðsstjórinn Stefano Domenicali við frumsýningarathöfnina.