Felipe Massa segir það sér engum áhyggjum valda að þurfa kljást við Fernando Alonso sem liðsfélaga hjá Ferrari, þrátt fyrir þær miklu væntingar sem gerðar séu til spænska ökuþórsins.
Alonso gekk til liðs við Ferrari með það eitt að takmarki að færa liðinu aftur heimsmeistaratitil ökuþóra. Síðasti heimsmeistari ökuþóra í röðum Ferrari er Kimi Räikkönen, árið 2007.
Og þótt kastljósið hafi að mestu verið á Alonso að undanförnu segist Massa ekkert óttast að verða útundan og falla í skugga af liðsfélaga sínum. Hann segist hafa verið í svipaðri aðstöðu gagnvart Räikkönen og þar áður Michael Schumacher.
„Ég hef í mörg ár orðið að búa við að við miklu sé búist af liðsfélögum mínum. Þegar nýr ökumaður kemur til skjalanna hjá Ferrari eru miklar væntingar gerðar og takmarkið er að við vinnum vel sem lið, til fullkomnunnar.
Liðsfélagi minn verður mjög öflugur, ég hef alltaf skilað góðu verki, lært heilmikið, sýnt margsinnis að ég get ekið til sigurs og barist, óháð því hver liðsfélaginn hefur verið.
Michael [Schumacher] er vinur og ég lærði mikið af honum en á brautinni verðum við keppinautar. Samband okkar verður samt sem áður gott,“ sagði Massa í dag.