Ferrari gagnrýnir Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) fyrir þá áherslu sem lögð var á að fá ný lið til liðs við íþróttina en útlit er fyrir að tvö af fjórum nái ekki á rásmarkið í fyrsta móti ársins. Segir Ferrari FIA hafa háð „heilagt stríð“.
Bæði US F1 og Campos Meta hafa átt í miklum erfiðleikum með að afla styrktarfjár og hefur síðarnefnda liðið nú verið yfirtekið af aðilum sem hyggjast bjarga því og koma því til leiks.
Hvorugt þeirra á þó enn gangfæran keppnisbíl og hefur USF1 þegar falast eftir því við FIA að fá að sleppa nokkrum fyrstu mótunum.
Vegna þessara vandræða gagnrýnir Ferrari FIA harðlega í grein, sem birtist á vefsetri liðsins í dag. Þar er ekki skafið af hlutunum og stefna FIA í að hvetja ný lið til þátttöku sem heilagt stríð.
Segir í greininni, að það hefði verið betra fyrir formúlu-1 að hafa árfam lið á borð við Toyota og BMW, sem sneru baki við íþróttinni í fyrra.
„Af liðunum 13 sem tilkynntu þátttöku, eða voru spönuð til að skrá sig, hafa aðeins 11 staðið sig, mætt til leiks á braut, sum seinna en önnur, og á sama tíma sem sum hafa einungis lagt að baki nokkur hundruð kílómetra, hafa önnur gert meira, en á minni hraða,“ segir í grein Ferrari.
Þar segir að staða mála sé arfleifð hins heilaga stríðs sem fyrrverandi forseti FIA, Max Moseley, hefði háð gegn liðum bílafyrirtækja í fyrra. „Afleiðingin er þessi: tvö lið mæta haltrandi til leiksog því þriðja er ýtt inn í hringinn af ósýnilegri hönd - og hið fjórða, ja það væri betra að hringja í týnt og fundið til að hafa upp á því,“ segir skrifari Ferrari.
„Á sama tíma höfum við glatað tveimur bílaframleiðendum, BMW og Toyota, og hjá Renault er fátt eftir nema nafnið. Var allt þetta þess virði?“ er spurt að lokum.