Michael Schumacher mun þurfa ganga í gegnum mikla erfiðleika og andbyr er hann snýr aftur til keppni í formúlu-1. Þeirrar skoðunar er Mark Webber hjá Red Bull.
Schumacher, sem er 41 árs, hefur keppni á ný um komandi helgi eftir þriggja ára hlé, en síðast keppti hann í október 2006. Hann hefur verið öflugur við reynsluakstur í vetur með Mercedesliðinu.
Webber er á því að heimsmeistarinn fyrrverandi muni ekki njóta sömu velgengni í keppni og áður fyrr. „Ég held að keppnistíðin verði honum mjög erfið. Honum mun ganga sæmilega en aldrei hafa menn snúið aftur með miklum ágætum. Hvenær hafa menn orðið betri eftir að hafa snúið aftur?“ spyr hann í samtali við breska blaðið Daily Telegraph.
Webber telur að ný kynslóð ökuþóra muni eiga auðveldar með að láta til sín taka því keppnisbílar séu auðveldari viðureignar nú en áður.