Sebastian Vettel hjá Red Bull er á því að hann hefði farið með sigur af hólmi í Barein hefði bilun ekki orðið í pústgrein bílsins er 20 hringir af 49 voru eftir.
Vettel virtist ráða ferðinni í mótinu en hann hóf keppni af ráspól og var aldrei ógnað meðan bíllinn var í lagi. Hélt hann stöðu sinni eftir dekkjaskiptin og allt þar til að vélin skilaði ekki lengur fullu afli.
Eftir kappaksturinn játaði Vettel að það væru vonbrigði að hafa ekki unnið kappaksturinn, eftir að hafa verið hraðskreiðastur alla helgina. „Þetta var leitt en hvað getur maður gert?“ sagði hann í spurnartón.
Við höfðum góða stjórn á dekkjunum og bremsunum, allt gekk eins og vel smurð vél. Ég veit ekki hvers vegna ég missti afl, en það brotnaði eitthvað í vélarverkinu. Til allrar hamingju gat ég haldið áfram en við áttum í raun og veru að vinna sigur,“ sagði Vettel.
Hann sagði að það hefði verið beiskur biti að kyngja þegar hann áttaði sig á því að bíllinn myndi ekki lengur duga til sigurs. „Það var ekki auðvelt. Maður er í forystu og þarf einungis að koma bílnum í höfn. Og þá verður bilunin, sem maður vissi ekki í fyrstu hvort myndi versna eftir því sem á leið.
Undir lokin virtist bíllinn jafna sig en bilunin kostaði okkur mikið. En 12 stig voru mikilvæg samt,“ sagði Vettel.