Mercedesstjórinn Ross Brawn er harður á því að lið hans muni fyrr en seinna keppa á toppnum í formúlu-1. Ber hann fyrir sig kraftmikilli þróunaráætlun liðsins.
Bíla Mercedes skorti hraða á við keppinautana hjá Red Bull, Ferrari og McLaren í fyrsta móti ársins, í Barein um síðustu helgi. Nico Rosberg varð í fimmta sæti í mark og Michael Schumacher í því sjötta.
Brawn játar að bíla Mercedes skorti hraða í samanburði við helstu keppinautana. En hann segist bjartsýnn á að undinn verði bugur á þeim vanda í næstu mótum.
„Liðið vann gott verk í Barein en við föllumst á að við erum ekki nógu samkeppnisfærir og að við eigum verk að vinna til að brúa bilið,“ segir Brawn í forspjalli fyrir næsta mót, sem fram fer í Melbourne í Ástralíu eftir rúma viku.
„Ég var mjög sáttur við frammistöðu bæði Nico og Michaels og hvernig þeir unnu saman við að gefa okkur sem gleggsta mynd af gengi bílsins alla helgina svo við gætum bætt hann.
Bíllinn er sterkur í grunninn og þróunaráætlun fyrir nokkur næstu mót ættu að bæta hann nógu mikið til að keppa um toppsætin,“ segir Brawn.