Norbert Haug, íþróttastjóri Mercedes, segist sannfærður um að Michael Schumacher muni komast aftur á sigurbraut í formúlu-1 eftir að liðinu tekst að auka grunnhraða silfurörvanna.
Í mótunum þremur sem lokið er hefur Schumacher beðið lægri hlut fyrir liðsfélaga sínum Nico Rosberg, bæði í tímatökum og í keppni.
Heimsmeistarinn fyrrverandi varð sjötti í fyrsta móti ársins, í Barein, og vann sig upp í tíunda sæti í Melbourne eftir árekstur á fyrsta hring og viðgerðarstopp í framhaldi af því óhappi.
Í Sepang í Malasíu um liðna helgi féll hann úr leik eftir að felguró datt af bílnum. Þrátt fyrir mótlætið er Haug mjög ánægður með frammistöðu Schumacher hjá Mercedesliðinu.
„Mjög sáttur, Michael vinnur vel með liðinu og það nýtur reynslu hans. Það er ekki við hann að sakast að árangurinn hefur ekki verið betri. Hann hefði getað verið frábær í öðru móti [í Melbourne] hefði Alonso - af óviðráðanlegum aðstæðum - ekki rekist á hann í fyrstu beygju,“ segir Haug.
Hann segir engan vafa í sínum huga um að Schumacher muni efna samning sinn við Mercedesliðið sem er til þriggja ára. Fyrir honum vaki að endurkoman verði árangursrík. „Um leið og bíllinn okkar verður þess megnugur, mun Michael sigra,“ segir Haug.