Vettel sýndi öryggi

Vettel á leið til ráspóls í Sjanghæ.
Vettel á leið til ráspóls í Sjanghæ. reuters

Sebastian Vettel hjá Red Bull var í þessu að vinna ráspól kínverska kappakstursins. Er það þriðji póll hans á árinu og sá áttundi á ferlinum. Annar varð félagi hans Mark Webber og þriðji Fernando Alonso hjá Ferrari.

Með þessu hefur Red Bull unnið ráspól í öllum fjórum fyrstu mótum ársins og drottnun liðsins undirstrikaði Webber með öðru sætinu. Að vísu var keppnin að þessu sinni harðari en í fyrri mótum og skiptust þannig fjórir ökumenn á toppsætinu á síðustu 30-45 sekúndum tímatökunnar.

Fernando Alonso hjá Ferrari lét að sér kveða og var lengst af í öðru sæti en hafnaði í því þriðja að lokum. Webber gerði ögn betur en hann í lokatilraun sinni og sat um skeið á pólnum, eða þar til Vettel ruddi honum af stalli.

Jenson Button og Lewis Hamilton hjá McLaren komust báðir í efsta sætið á lokamínútunni en enduðu í fimmta og sjötta. 

Eftir fyrri atlögu ökuþóranna að tíma í lokalotunni var Vettel í efsta sæti og Alonso annar. Í seinni atlögunni munaði nær engu á tímum Webbers og Vettel en sá síðarnefndi var þó ögn fljótari gegnum lokabeygjurnar og hrifsaði þá pólinn af félaga sínum.

Til marks um hversu jöfn keppnin var er Alonso fjórum sætum á undan liðsfélaga sínum Felipe Massa sem varð sjöundi en á þeim munaði þó aðeins 0,2 sekúndum.

Hamilton var efstur bæði í fyrstu og annarri lotu tímatökunnar en hélt ekki sama dampi í lokalotunni og hefur keppni í sjötta sæti. Var talið að McLarenbílarnir væru öðrum hraðskreiðari á Sjanghæbrautinni en sú varð ekki raunin þar sem Button varð fimmti.

 Niðurstaða tímatökunnar, og þarmeð rásröð morgundagsins, varð annars sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Lota 1 Lota 2 Lota 3
1. Vettel Red Bull 1:36.317 1:35.280 1:34.558
2. Webber Red Bull 1:35.978 1:35.100 1:34.806
3. Alonso Ferrari 1:35.987 1:35.235 1:34.913
4. Rosberg Mercedes 1:35.952 1:35.134 1:34.923
5. Button McLaren 1:36.122 1:35.443 1:34.979
6. Hamilton McLaren 1:35.641 1:34.928 1:35.034
7. Massa Ferrari 1:36.076 1:35.290 1:35.180
8. Kubica Renault 1:36.348 1:35.550 1:35.364
9. Schumacher Mercedes 1:36.484 1:35.715 1:35.646
10. Sutil Force India 1:36.671 1:35.665 1:35.963
11. Barrichello Williams 1:36.664 1:35.748
12. Alguersuari Toro Rosso 1:36.618 1:36.047
13. Buemi Toro Rosso 1:36.793 1:36.149
14. Petrov Renault 1:37.031 1:36.311
15. Kobayashi Sauber 1:37.044 1:36.422
16. Hulkenberg Williams 1:37.049 1:36.647
17. de la Rosa Sauber 1:37.050 1:37.020
18. Liuzzi Force India 1:37.161
19. Glock Virgin 1:39.278
20. Trulli Lotus 1:39.399
21. Kovalainen Lotus 1:39.520
22. di Grassi Virgin 1:39.783
23. Senna HRT 1:40.469
24. Chandhok HRT 1:40.578
Vettel fagnar ráspólnum í Sjanghæ.
Vettel fagnar ráspólnum í Sjanghæ. reuters
Alonso hélt uppi heiðri Ferrari.
Alonso hélt uppi heiðri Ferrari. reuters
Red Bull vann tvö fremstu sætin og Ferrari það þriðja.
Red Bull vann tvö fremstu sætin og Ferrari það þriðja. reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert