Jenson Button á McLaren var í þessu að vinna afar sviptingasaman Kínakappaksturinn. Hafði hann best tök á viðsjárverðum aðstæðum sem kölluðu á stöðugar breytingar á keppnisherfræði. Sýndi sannkallaða fagmennsku heimsmeistara. Annar varð liðsfélagi hans Lewis Hamilton og Nico Rosberg hjá Mercedes þriðji en hann var lengi vel með forystu.
Þetta er annar sigur Buttons á árinu og með honum tekur hann 10 stiga forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Er með 60 stig, annar er Rosberg með 50 og þriðji er Fernando Alonso hjá Ferrari með 49 en Hamilton hefur aflað sér sama stigafjölda.
Button sýndi eina ferðina enn herfræðilega kænsku er hann hélt áfram akstri á sléttum dekkjum meðan keppinautarnir skutust inn að bílskúr eftir millidekkjum. Þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður og stífa sókn Hamiltons tókst Button að halda sér á brautinni á lokahringjunum og sigra.
Um tíma virtist öryggisbíllinn stofna forystu og hugsanlegum sigri Buttons í tvísýnu. Hann hélt höfði og sýndi hverju sinni stöðumat sem heimsmeistara sæmir og vann verðskuldað.
Viðburðarríkari kappakstur hefur tæpast farið fram það sem af er öldinni. Vegna aðstæðna var mikið um stöðubreytingar, bæði af völdum taktískra ákvarðana og snilldarlegra tilþrifa ökumanna á brautinni. Linnti vart látum frá því á fyrsta hring þar til á þeim síðasta.Meðal annars tókust á nýliðar og mjög sjóaðir keppnismenn og minnist t.d. Vitaly Petrov hjá Renault dagsins lengi en hann vann sig fram úr fjölda ökuþóra á síðustu 5-10 hringjunum, m.a. fram úr Michael Schumacher hjá Mercedes og Mark Webber hjá Red Bull. Mátti ekki á milli sjá hverjir væru betri í bleytunni, nýliðinn eða annálaðir regnmeistarar á borð við Schumacher og Webber hefur hátt á annað hundrað fleiri mót undir belti en Petrov.
Vonbrigði hjá Red Bull - Alonso stopar fimm sinnumEftir að hafa unnið keppnina um ráspólinn tvöfalt olli Red Bull líklega mestu vonbrigðunum í kappakstrinum þar sem Sebastian Vettel varð aðeins sjötti og Webber áttundi. Ræður herfræði líklega þar mestu um; ákvarðanir á þeim bæ gengu ekki alveg eins vel upp og hjá mótherjunum hjá McLaren, Ferrari og Mercedes.
Fjórða sætið af hálfu Alonso vekur athygli þar sem hann varð að stoppa í bílskúrareinni alls fimm sinnum. Fjórum sinnum vegna dekkjaskipta og einu sinni fyrir þjófstart. Brá hann sekúndubroti of snemma við í ræsingunni og vann sig úr þriðja sæti í forystu á fyrstu metrunum, en við skoðun reyndist hann hafa sleppt kúplingunni áður en rauðu ljósin slokknuðu.
Fyrstu dekkjaskiptin reyndust mistök
Ballið byrjaði strax í byrjun, er Vitantonio Liuzzi missti stjórn á Force India bílnum, snarsnerist á bremsusvæði og skall á Sebastien Buemi hjá Toro Rosso og Kamui Kobayashi hjá Sauber svo allir féllu úr leik. Fleiri komu við sögu og urðu að láta gera við tjón á framvængjum; Adrian Sutil, Jaime Alguersuari og Rubens Barrichello.
Öryggisbíllinn var kallaður út af þessu tilefni og þá skutust báðir ökumenn Red Bull og Ferrari, svo og Hamilton og Schumacher inn að bílskúr og skiptu yfir á millidekk. Í fyrstu reyndist það hafa verið rétt ákvörðun en eiginlega um leið hætti að rigna og græddu því sérstaklega þeir Rosberg og Button á því að hafa ekki skipt um dekk því þeir voru á sama tíma að aka mun hraðar.
Brautin var því ekki nógu blaut fyrir regndekk og skiptu fyrrnefndir ökuþórar því fljótt aftur yfir á þurrdekk. Þannig gekk þetta fyrir sig, dekkjaskipti ótt og títt vegna aðstæðna því aftur rigndi er á keppnina leið og þá lengur. Sömuleiðis var öryggisbíll kallaður öðru sinni út meðan bílbrak var hreinsað af brautinni og leiddi það til nýrra taktískra ákvarðana og stöðusviptinga. Af öllu því sem á gekk verður þessa kappaksturs í Sjanghæ lengi minnst.