Sebastian Vettel setti besta tímann á seinni æfingu dagsins í Barcelona en þar fer Spánarklappaksturinn fram á sunnudag. Næsthraðast ók liðsfélagi hans hjá Red Bull, Mark Webber, en á fyrri æfingunni voru ökumenn McLaren í tveimur efstu sætum.
Ökumenn Red Bull virtust í nokkrum sérflokki þegar þeir notuðu mýkri dekkin á Katalóníuhringnum undir lok æfingarinnar. Webber var lengst af með besta tímann, en Vettel hafði sætaskipti við hann á lokamínútunum og var sá eini sem komst undir 1:20 mínútna múrinn á hringnum.Minni munur var milli næstu manna og munaði aðeins röskri hálfri sekúndu á þriðja til níunda manni. Eins og í morgun var Michael Schumacher hjá Mercedes bestur hinna og öðru sinni í dag leggur hann liðsfélaga sinn Nico Rosberg að velli, en hann setti sjöunda besta tímann.
Fernando Alonso hjá Ferrari endaði í fjórða sæti eftir að hafa bætt brautartíma sína verulega með mýkri dekkin undir í lokin. Lewis Hamilton hjá McLaren setti fimmta besta hringinn en hann ók hraðast í morgun. Ók hann ögn hægar á seinni æfingunni. Robert Kubica hjá Renault setti svo sjötta besta tímann.
Pedro de la Rosa hjá Sauber gat lítið sem ekkert ekið í morgun vegna gírkassabilunar. Það var að baki á seinni æfingunni og ók hann alls 37 hringi á leið til 11. besta tímans.
Af nýju liðunum komst Lotus best frá seinni æfingunni, alveg eins og á þeirri fyrri. Nú var Jarno Trulli á undan liðsfélaga sínum Heikki Kovalainen. Lucas di Grassi setti 21. besta tímann á eldri útgáfu Virginbílsins en Timo Glock setti aðeins þann 24. besta á nýja bílnum.
Nico Hülkenberg hjá Williams missti vald á bílnum í beygju og endaði á öryggisvegg á sjöunda hring. Skemmdist bíllinn bæði að framan og aftan og var honum ekki ekið frekar.
Niðurstaða æfingarinnar varð annars sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Tími | Bil | Hri. |
---|---|---|---|---|---|
1. | Vettel | Red Bull | 1:19.965 | 24 | |
2. | Webber | Red Bull | 1:20.175 | +0.210 | 35 |
3. | Schumacher | Mercedes | 1:20.757 | +0.792 | 28 |
4. | Alonso | Ferrari | 1:20.819 | +0.854 | 30 |
5. | Hamilton | McLaren | 1:21.191 | +1.226 | 23 |
6. | Kubica | Renault | 1:21.202 | +1.237 | 36 |
7. | Rosberg | Mercedes | 1:21.271 | +1.306 | 27 |
8. | Massa | Ferrari | 1:21.302 | +1.337 | 25 |
9. | Button | McLaren | 1:21.364 | +1.399 | 26 |
10. | Sutil | Force India | 1:21.518 | +1.553 | 32 |
11. | de la Rosa | Sauber | 1:21.672 | +1.707 | 37 |
12. | Liuzzi | Force India | 1:21.904 | +1.939 | 32 |
13. | Kobayashi | Sauber | 1:21.931 | +1.966 | 29 |
14. | Buemi | Toro Rosso | 1:22.184 | +2.219 | 37 |
15. | Barrichello | Williams | 1:22.192 | +2.227 | 33 |
16. | Petrov | Renault | 1:22.435 | +2.470 | 35 |
17. | Alguersuari | Toro Rosso | 1:22.449 | +2.484 | 34 |
18. | Hülkenberg | Williams | 1:23.765 | +3.800 | 7 |
19. | Trulli | Lotus | 1:24.209 | +4.244 | 26 |
20. | Kovalainen | Lotus | 1:24.894 | +4.929 | 22 |
21. | di Grassi | Virgin | 1:25.066 | +5.101 | 30 |
22. | Chandhok | HRT | 1:25.972 | +6.007 | 23 |
23. | Senna | HRT | 1:26.152 | +6.187 | 25 |
24. | Glock | Virgin | 1:26.596 | +6.631 | 21 |