Ross Brawn fúll yfir klúðri

Rosberg í Mónakó.
Rosberg í Mónakó. reuters

Mercedesstjórinn Ross Brawn segist svekktur yfir „klúðri“ sem fólst í því að Nico Rosberg tafði fyrir Michael Schumacher í tímatökunum í Mónakó. Brawn hafði gert sér miklar vonir en bestu tækifæri ökuþóra hans fóru forgörðum.

Brawn hafði vonast til að tímatökurnar í Mónakó yrðu þær bestu af hálfu liðsins á árinu. Ökumenn hans urðu í sjötta og sjöunda sæti og vandræðagangur Rosbergs á leið út í brautina varð til þess að hann tafði för Schumacher.

„Ég er afar svekktur því bíllinn var góður alla helgina en sem lið stóðum við okkur ekki vel í þriðju lotu. Það síðasta sem við vildum var að bílarnir væru á sama blettinum því það myndi bitna á báðum ökumönnum.

Ætlunin var að hafa langt bil á milli þeirra en er við ætluðum að hleypa Nico af stað kom upp vandamál og hann fór ekki úr skúrnum fyrr en 20-30 sekúndum seinna en ætlað hafði verið. Því urðu þeir samferða í brautinni.

Og því til viðbótar var Nico klemmdur milli Michaels, sem var á eftir honum, og  Rubens [Barrichello] sem var á undan. Við kláruðum þetta ekki vel sem lið.

Michael var svekktur en þegar við útskýrðum fyrir honum hvað gerst hafði jafnaði hann sig. Við vorum í raun allir fúlir í dag því við vorum með góðan bíl en klúðruðum dæminu,“ sagði Brawn.


Brawn við stjórnborð Mercedes.
Brawn við stjórnborð Mercedes. reuters
Schumacher í tímatökunum í Mónakó.
Schumacher í tímatökunum í Mónakó. reutres
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert