Lewis Hamilton hjá McLaren vann sigur í tyrkneska kappakstrinum í Istanbúl og liðsfélagi hans Jenson Button varð annar. Mark Webber hjá Red Bull hóf keppni á ráspól og leiddi lengi vel en féll niður í þriðja sæti eftir samstuð við liðsfélaga sinn Sebastian Vettel.
Vettel var að reyna framúrakstur á 41. hring en skellti hægra afturhjóli í framhjól á bíl Webbers og snarsnerist nær samstundis og féll úr leik. Ekki átti framferði hans upp á pall hjá liðsstjóranum Christian Horner og tæknistjóranum Adrian Newey en báðir fórnuðu höndum af undrun yfir uppátæki hans.
Í stað þess að aka til tvöfalds sigurs Red Bull leiddi áreksturinn til þess að McLarenþórarnir fengu fyrstu tvö sætin á silfurfati þar sem Webber þurfti að fá nýja trjónu á bílinn eftir áreksturinn.
Skömmu eftir að þeir fengu fremstu sætin upp í hendurnar tókust Button og Hamilton á um forystuna. Button hafði betur í fyrstu en hélt fyrsta sætinu ekki lengi þar sem Hamilton tókst að knýja sig fram úr honum á næsta hring.
Michael Schumacher hjá Mercedes varð fjórði, sem er hans besta á árinu. Liðsfélagi hans Nico Rosberg varð fimmti, Robert Kubica hjá Renault sjötti og í næstu tveimur sætum urðu Felipe Massa og Fernando Alonso hjá Ferrari.
Þau tíðindi gerðust, að Kazumi Kobayashi vann sitt fyrsta stig á árinu með tíunda sætinu. Þar með komst og Sauberliðið í fyrsta sinn á blað í keppni bílsmiða. Einu liðin sem eru án stiga eru nýju liðin þrjú. Féllu báðir bílar bæði Lotus og Hispania úr leik vegna bilana.
Webber trónir efstur en McLaren ryður Red Bull úr efsta sæti í keppni bílsmiða
Með úrslitunum er Webber nú einn í efsta sæti í stigakeppni ökuþóra með 93 stig og Vettel fallinn úr öðru sæti í það fimmta, með sín 78. Button færðist upp í annað sætið, hefur unnið 88 stig og Hamilton í það þriðja með 84. Alonso komst einnig upp fyrir Vettel, með einu stigi, en hann hefur unnið 79.
Og McLaren hefur að nýju tekið forystuna í keppni bílsmiða, með 172 stig, eða einu fleira en Red Bull. Harðari getur keppnin því vart verið. Ferrari er með 146 stig og Mercedes 100.