Rubens Barrichello hjá Williams sagði Jamie Alguersuari hjá Toro Rosso hafa gert út um vonina um góðan árangur í Montreal. Engu að síður braut hann þar blað í sögu formúlu-1.
Barrichello náði þeim áfanga að verða fyrstur ökumanna sögunnar til að leggja að baki 15.000 keppnishringi frá upphafi vega, eða frá því keppni hófst í formúlu-1 árið 1950.
Barrichello er reyndasti ökumaður sögunnar en Alguersuari yngsti keppandinn í dag. Hann segir spænska ökuþórinn hafa gengið full langt við að reyna verja aksturslínu sína. Hafi hann ekið utan í sig af miklu afli í byrjun keppninnar.
„Hann skall utan í mig af miklum þunga og skemmdi bremsubúnað. Ég varð að fara inn að bílskúr til viðgerðar og það tók nokkra hringi til viðbótar að fá bremsurnar til að virka aftur eðlilega.
Þar með var vonin um góðan árangur úr sögunni, sem var virkilega leitt liðsins vegna þar sem endurbætur á bílnum virkuðu vel og hann var þess megnugur að spjara sig vel,“ sagði Barrichello sem hafnaði í 14. sæti.