Karun Chandhok mun ekki keppa fyrir Hispanialiðið í þýska kappakstrinum í Hockenheim um aðra helgi. Hann víkur sæti fyrir reynsluökuþórnum Sakon Yamamoto.
Af ókunnum ástæðum - hugsanlega fjárhagslegum - var Bruno Senna vikið úr sæti sínu fyrir breska kappaksturinn um síðastliðna helgi og Yamamoto settur í sæti hans.
Japanski ökumaðurinn sagðist engar skýringar hafa á því og ekkert hefur verið látið uppi af hálfu Hispania um þessar hrókeringar, hvorki nú né í síðustu viku.
Senna mun keppa á ný í Hockenheim en í staðinn hefur Chandhok verið vikið úr sæti til að rýma fyrir Yamamoto.
Sá er og var undir verndarvæng Toyota og hefur verið talið að keppni hans nú - nokkrum árum eftir að hann ók síðast í formúlubíl - tengist tilraunum Hispania til að komast yfir keppnisbíl Toyota frá í fyrra í þeim tilgangi að styrkja stöðu sína í formúlunni.
Af hálfu Hispania var það eitt sagt að indverski ökuþórinn, Chandhok, væri áfram liðsmaður og líklegt væri að hann keppti aftur síðar á vertíðinni.