Villeneuve boðar eigið lið

Jacques Villeneuve.
Jacques Villeneuve. reuters

Jacques Villeneuve eigir enn von um að snúa aftur til starfa sem ökumaður í formúlu-1. Nú freistar hann þess að mæta til leiks með eigið lið á næsta ári. Talið er að á bak við hann standi Flavio Briatore og Pat Symonds, Renaultstjórarnir fyrrverandi.

Villeneuve mun hafa lagt inn umsókn til Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) um sæti 13. liðsins á rásmarkinu á næsta ári. Liðið er tilkynnt undir heitinu Villeneuve Racing.

Þýska tímaritið  Auto Motor und Sport varð fyrst til að skýra frá málinu. Lætur það að því liggja, að Briatore og Symonds eigi aðild að verkefni Villeneuve. Ennfremur er GP2-liðið Durango bendlað við það en það lýsti fyrr á árinu áformum um þátttöku í formúlu-1 en kippti síðan að sér höndum.

Villeneuve játaði við tímaritið að hann sé að vinna að þátttöku í formúlu-1 en vildi ekki nánar tjá sig um það.

Villeneuve hætti keppni á miðju ári 2006 eftir að leiðir með honum og BMW-liðinu skildu. Hann var ráðinn til serbneska liðsins Stefan GP en það fékk ekki inni í formúlunni. Alls munu fjögur lið keppa um þrettánda sætið í formúlu-1 á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert