Alonso fær sigur á silfurfati

Alonso fagnar sigri í Hockenheim.
Alonso fagnar sigri í Hockenheim. reuters

Fernando Alonso var í þessu að vinna þýska kappaksturinn í Hockenheim og liðsfélagi hans Felipe Massa varð annar. Sá umdeildi atburður átti sér stað eftir 47 hringi af 67 að Massa var skipað að hægja og hleypa Alonso fram úr. Þriðji varð Sebastian Vettel hjá Red Bull.

Massa náði forystu í ræsingunni  er Vettel í örvæntingu sinni sveigði yfir til hægri til að reyna hindra Alonso en báðir Ferraribílarnir ræstu betur af stað en bíll Red Bull. Og ekki dugði bragðið Vettel því Alonso vann sig engu að síður fram úr honum í fyrstu beygju og tók annað sæti.

Eftir það hélst röð fyrstu manna þessi en Alonso minnkaði bilið í Massa og gerði tilraunir til að taka fram úr, en tókst ekki. Á 47. hring kemur Rob Smedley, vélstjóri Massa, í talstöðina og segir við sinn mann: „Fernando er hraðskreiðari en þú“ og biður hann að staðfesta hvort hann hafi „skilið“ það. Dulmál kannski, en skilaboðin eru afdráttarlaus og upp spruttu strax ásakanir á hendur Ferrari að um liðsfyrirmæli hafi verið að ræða, en þau eru stranglega bönnuð.

Ár frá slysi Massa í Búdapest

Á næsta hring liftir Massa bensíngjöfinni eftir hárnálarbeygjuna og Alonso hraðaði sér fram úr og tók forystuna, í samræmi við tilmæli stjórnborðs Ferrari. Með þessu varð Massa af tækifæri til að vinna sigur í kappakstri þegar upp á dag er eitt ár liðið frá slysinu hörmulega í Búdapest í fyrra sem batt enda á keppni hans það árið.

Þótt þetta sér fyrsti mótssigur Ferrari frá í upphafsmóti ársins, Barein, - en þar vann liðið einnig tvöfalt - var lítill fögnuður með þeim Alonso og Massa er þeir stigu út úr bílum sínum í lokahöfn. Var ekki annað að sjá en vonbrigði Massa skinu úr andliti hans. Og að Alonso væri meðvitaður um að sigurinn yrði umdeildur.

Vettel varð sem áður segir þriðji en liðsfélagi hans Mark Webber sjötti. Milli þeirra urðu Lewis Hamilton og Jenson Button hjá McLaren sem unnu sig fram úr Webber í keppninni. 

Drottnun Red Bull á enda?

Ef keppnin í dag er til marks um það sem koma skal virðist sem drottnun Red Bull í tímatökum og kappakstri sé lokið.

Heimamönnum til ánægju - eftir vonbrigði vegna hans í tímatökunum - lauk Michael Schumacher keppni í stigasæti, í því níunda. Þeir Mercedesfélagarnir, Nico Rosberg og hann, urðu í áttunda og níunda sæti, milli Renaultþóranna Roberts Kubica og Vitalys Petrov. Petrov varð tíundi og vann þar með stig í annað sinn á árinu.

Vettel dregur Webber uppi og Alonso styrkir stöðu sína

Í stigakeppni ökuþóra dró Vettel félaga sinn Webber uppi en sá síðarnefndi telst ofar út á fleiri mótssigra. Deila þeir þriðja sæti með 136 stig en Hamilton er efstur með 157 og Button annar með 143. Alonso styrkti mjög stöðu sína með sigrinum í dag og er fimmt með 123 stig.

Í keppni bílsmiða er McLaren með forystu, 300 stig, vann í dag einu stigi færra en Red Bull sem er með 272 stig. Ferrari er í þriðja sæti með 208, bætti við sig 45 stigum með tvöföldum sigri í dag.

 
Massa var á undan Alonso fyrstu 47 hringina af 67.
Massa var á undan Alonso fyrstu 47 hringina af 67. reuters
Massa kominn í forystu, úr þriðja sæti, á fyrstu metrunum …
Massa kominn í forystu, úr þriðja sæti, á fyrstu metrunum í Hockenheim. reuters
Vettel (fjær) hafði ekkert í Ferrarifákana að gera, en hér …
Vettel (fjær) hafði ekkert í Ferrarifákana að gera, en hér er hann á eftir Alonso. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert