Flavio Briatore heimsótti Robert Kubica á sjúkrahús í dag og spáði að því loknu, að hann yrði sestur undir stýri formúlu-1 bíls eftir um hálft ár. Hann sagði Kubica hafa bryddað upp á því sjálfur hvenær hann gæti snúið aftur til keppni eftir hið alvarlega slys í ralli á Ítalíu í gær.
„Hann var hress miðað við hið hryllilega slys sem hann varð fyrir. Ég er ánægður með framvindu hans og sáttur við heimsóknina og spjall okkar,“ sagði Renaultstjórinn fyrrverandi.
„Kubica er einstakur náungi og með mikla möguleika á að ná sér. Við ræddum ekki slysið sjálft, heldur um formúluna almennt og möguleika hans á að keppa fljótt aftur. Miðað við formið sem hann var í og möguleika á að ná sér þá veðja ég á að hann verið kominn aftur í keppnisform eftir fimm til sex mánuði.
Bæklunarlæknirinn Igor Rossello, sem tók þátt í sjö stunda skurðaðgerð í gær, segir að alltof snemmt sé að segja um hvort Kubica geti keppt aftur. „Það er útilokað að spá einhverju um það. Maður veit aldrei hvernig taugakerfið jafnar sig og mikið er undir viljastyrk sjúklingsins komið. Kappakstursmenn eru einstakir og fljótari að jafna sig en venjulegt fólk. Ég hef haft sjúkling sem náði 90% hreyfigetu í slasaða hönd,“ segir hann.
Fernando Alonso, ökumaður hjá Ferrari og keppinautur en jafnframt persónulegur vinur Kubica, heimsótti spítalann einnig.