Mark Webber sagði eftir æfingar formúluliðanna í dag í Barcelona, að Red Bull liðið væri klárt til keppni, en fyrsta mót vertíðarinnar fer fram eftir rúman hálfan mánuð í Melbourne.
Webber sagði niðurstöðuna af reynsluakstrinum í dag hvetjandi en hann setti besta brautartímann. Hefur liðinu tekist að bæta bílinn mjög, að sögn Webbers, í vetur.
Og hann segist farinn að klæja í lófana eftir því að geta hafið keppni, ekki síst til að fá úr því skorið hvar liðið stendur í samanburði við önnur lið.
Red Bull vann báða heimsmeistaratitla formúlunnar í fyrra, liðið vann titil bílsmiða og Sebastian Vettel titil ökumanna.